15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

21. mál, vígslubiskupar

Jón Þorkelsson:

Vegna þess að hv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) ávarpaði mig sérstaklega í ræðu sinni, þá neyðist eg til að standa upp og svara honum nokkrum orðum.

Breyt.till. þm. eru að mínu áliti óheppilegar og til skemda á frumv., ef þær næðu fram að ganga, sem eg vona að verði ekki.

Eg legg áherzlu á það, að vígslubiskuparnir séu tveir, á því fer bezt og með því er sjálfstæði kirkjunnar betur borgið heldur en ef vígslubiskupinn er ekki nema einn. Hitt er mér ekkert kappsmál og vil lofa kennidóminum að kljást um það, hvort þeir eigi að vera biskupsvígðir eða ekki. — Eg legg hins vegar áherzlu á það, að Hólabiskupsdæmi og kristnin norðanlands fái aftur nokkurn veginn sóma eftir því, sem nú verður við komist, og það getur að eins orðið með því móti, að vígslubiskuparnir séu tveir.

Ekki veit eg, hvers vegna háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) er að skifta sér af þessu máli á þá leið, sem hann gerir, því mér finst varla líklegt, að öðrum eins kennimanni geti þótt það mjög áríðandi að fá tekin út úr frumv. ákvæðin um vígslu biskupanna. Frv. alt í heild sinni miðar að því að auka virðingu kirkjunnar, og eg skil ekki annað en að vígslan hljóti fremur að vera henni sæmdarbót. Annars læt eg það efni mig litlu skipta. Eg má til að mótmæla þeim ummælum háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) að nokkurri undirhyggju hafi verið beitt til þess að koma þessu máli fram hér í deildinni í þessu formi. Allir vita eða gætu vitað, að hér hefir verið farið að undirhyggjulaust. Hér var gengið hreinmannlega til verka. Upphaflega var farið fram á að endurreisa Hólabiskupsstól, sem allir vissu að var vonlaust verk að sinni. Og þegar því náði ekki, þá var sá tekinn upp að fara fram á, að tveir yrðu vígslubiskuparnir, sinn í hvoru hinna fornu biskupsdæma, og að því ráði hurfu deildarmenn með mér.

Breyt.till. háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) á að fella allar, eins og þær eru, og skrítið er það, að hann skuli hafa komið með þessar till., þar sem hann hefir nýlega verið að berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju, eins og menn muna. Breyt.till. háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) er að vísu bezt að fella líka, þó að mér þyki það á minna standa.