15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

21. mál, vígslubiskupar

Jón Jónsson (N.-Múl.):

Háttv. .1 þm. Rvík. (J. Þ.) hélt enn, sem vænta mátti, fast fram biskupamáli sínu. En þó að eg hafi flutt tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju, sé eg ekki, að tillögur mínar í þessu máli komi neitt í bága við það. Þær stefna að því, að fækka einum embættismanni í þjónustu ríkiskirkjunnar frá því sem er í frumvarpinu, svo þetta er fremur spor áfram en aftur á bak, að því er skilnaðinn snertir. Annars þarf háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) ekki að hugsa, að mér sé ant um það, að stofna, þó ekki sé nema eitt vígslubiskupsembætti.

Það var ekki ætlun mín, að drótta að háttv. 1. þm. Rvk. (J. I3.), að hann hefði beitt undirferli í þessu máli, heldur hefði hann lagt kapp á, að fá sitt mál fram, og lagt sig í framkróka með það, að ná samkomulagi við meðnefndarmenn sína.

Þá var frmsm. málsins, háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.), að tala um, að það ætti ekki við, að ætla neinum þingmanni, að hann greiddi atkvæði að gamni sínu í neinu máli hér á þingi. En hér stóð nú svo sérstaklega á með þetta mál, enda ekki um úrslit þess að ræða, svo þetta hefði verið alveg saklaust. Ekki verður þetta heldur talið stór-nauðsynjamál, heldur hreint og beint hlægilegt hégómamál. Og þar sem háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) er, eins og öllum er kunnugt, fyndinn í orði og skemtilegur, var vorkunn, þó að þingmenn vildu gefa honum tækifæri til að skemta þingdeildinni við 3. umræðu þessa máls, þó að úr gamninu yrði alvara, eins og kunnugt er.