10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

25. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Eggert Pálsson:

Eg hefi ásamt hv. 2. þm. Rangv. (E. J.) leyft mér að koma fram með viðaukatill. við frv. þetta, viðaukatill. sem fer í þá átt, að stofnað verði sérstakt læknisumdæmi úr 4 austustu og neðstu hreppum Rangárvallasýslu. Og vona eg, að hin háttv. deild verði mér og samþingismanni mínum samdóma um að mál þetta er mesta nauðsynjamál fyrir héraðsbúa. Allir, sem kunnugir eru vita, hve vatnsföllin austur hjá okkur leggja sig mjög í millum og hefta allar samgöngur, oft og einatt um lengri tíma.

Þeir menn, sem búa í þessum hreppum, er nú voru nefndir, eru þannig alloftast útilokaðir frá læknishjálp vegna vatna, sem liggja á báðar hendur: Jökulsá að austan og Þverá að vestan, einhverjar hinar mestu torfærur hér á landi, er spyrja ekki að því, hvort mönnum sé það nauðsynjamál eða ekki að komast leiðar sinnar.

Í þessum héruðum eru búsettir hér umbil 1800—1900 menn, sem hafa þannig mjög mikla erfiðleika á að fá notið læknishjálpar, að minsta kosti oft og tíðum. Og þessir erfiðleikar að afla sér nauðsynlegrar læknishjálpar hafa farið vaxandi en ekki minkandi við breytingu þá, er síðast var gerð á skipun læknishéraðanna, þar sem Vestur-Eyjafjallahreppur var slitinn frá Rangárhéraði og lagður við Mýrdalshérað, um leið og héraðslækninum í Rangárhéraði var gefið eftir að sitja vestur á Rangárvöllum, í stað þess að áður bjó hann á Stórólfshvoli. Vegalengdin til læknis fyrir þá sem í austursýslunni búa, hefir því vaxið og meiri tálmanir nú fyrir þá á leiðinni, þar sem er Eystri-Rangá, er oft getur verið ill yfirferðar.

Áður höfðu Rangæingar ágætan lækni búsettan í miðri sýslu, ötulan og hjálpfúsan, er ekki lét sér torfærurnar fyrir brjósti brenna, heldur fór oft ótilkvaddur að vitja sjúklinga sinna, ef hann hugði þess vera þörf. Og meðan svo var ástatt fundu héraðsbúar ekki eins sárt til erfiðleikanna, sem því eru samfara að geta notið nauðsynlegrar læknishjálpar á þessum slóðum.

Því hefir stundum verið haldið fram, að ekki þýddi að brytja þannig niður læknishéruðin og gera þau mjög smá, því að þá myndu engir fást til að sækja um þau.

En að því er þetta hérað snertir, er hefir 1800—1900 íbúa, þá verður ekki annað sagt en að það hlyti að vera mjög aðgengilegt, auk þess sem það liggur í einhverjum bezta hluta landsins, hinum veðursælasta og gróðursælasta.

Hitt héraðið, Rangárhéraðið, yrði jafn fýsilegt eftir sem áður, þótt hrepparnir fyrir austan Þverá væru teknir frá því, af því að læknir hefir svo að segja engar tekjur, engin not af þeim hreppum; er naumast teljandi þótt hans kunni að vera vitjað þangað tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum á ári. Honum mundi vera meiri hagur að því að losna við erfiðleikana, sem því eru samfara.

Þó að Austur- og Vestur-Landeyjahreppar væru teknir frá, þá yrði Rangárlæknishérað ekki óaðgengilegra fyrir það, heldur einmitt aðgengilegra, þar eð ekki væri þá yfir Þverá að fara.

Skal eg svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en þar eð eg geri ráð fyrir að nefnd verði kosin til þess að athuga þetta læknaskipunarmál, þá vænti eg að hún liti á hinar sanngjörnu kröfur, er hér eru frambornar.