16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

25. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Pétur Jónsson:

Eg vil að eins bæta örfáum orðum við það, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði. Eg er sammála honum í öllu um þetta mál og þarf eigi að taka upp röksemdir hans.

Nefndin hefir ekki velt þessu máli fyrir sér á marga vegu, það hafa ekki verið haldnir margir fundir út af því, og ekki verið rætt um neina aðra útvegi til þess að bæta úr þörf hinna einstöku héraða, en að fjölga læknahéruðum með lögum. En úr þessari þörf verður ekki bætt með því að skapa ný læknishéruð, sem enginn læknir fæst í. í Norður-Þingeyjarsýslu eru 2 læknishéruð, og hefir læknir af og til fengist í annað þeirra, en aldrei fengist læknir í bæði í senn.

Mér hefir nú dottið í hug, að skjóta því til háttv. þingdeildarmanna, að athugað verði, hvort ekki mundi tiltækilegt að bæta úr þessum skorti á annan hátt, t. d. með því að yfirsetukonur fengju fyllri mentun en þær nú fá, og væru svo settar í slík héruð. Brýnasta og bráðasta þörfin er að hjálpa konum í barnsnauð.

Það er ekki nema eðlilegt, að mönnum í Nauteyrarhéraði þyki langt að vitja læknis til Ísafjarðar, og það er jafn-eðlilegt, að Ísfirðingum falli illa að missa lækninn frá sér svo langt í burtu.

Sumstaðar er þó enn erfiðara í þessu efni en í Nauteyrarhéraði, þar sem 2 læknar eru á Ísafirði; það er t. d. miklu verra í Grímsey og í Öræfunum, svo og í N.-Þingeyjarsýslu, ennfremur í Flatey og á Flateyjardal í Fjörðum í Þingeyjarsýslu. Þar er yfir sjó að fara og oft mikil áhætta við það ferðalag. Enda fer það þar saman, að læknirinn má illa missa sig svo langt í burtu, og hins vegar hlýtur hann að jafnaði að koma of seint til hjálpar.

Þetta virðist mér íhugunarvert, og ekki hægt að koma upp svo mörgum læknishéruðum, að úr því verði bætt að fullu. Þau myndu verða svo rýr, að ekki er við því að búast, að menn, sem hafa varið 12 árum eða meira af bezta hluta æfi sinnar til þess að búa sig undir þennan starfa, vilji sæta slíkum héruðum; þeir hafa lagt svo mikið í kostnað við námið, að til þessa er ekki að ætlast. En úr þessu mætti bæta með miklu ódýrara móti: að skipa hæfar yfirsetukonur í hin afskektu héruð. Þær hefðu leyst af hendi próf, sem sýndi að þær gætu farið með fæðingartengur, enda bundið um beinbrot og sár. — Það mætti líka kenna greindum mönnum að binda um beinbrot og kippa í lið. Lífshættutilfelli önnur en barnsnauð eru fátíð sem betur fer.

Eg vil því ekki fjölga læknishéruðum að svo stöddu.