19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

25. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Eg skal að eins benda á, að breyt.till. sú, sem nefndin leggur til, að samþykt verði, girðir fyrir, að lögin baki landssjóði nokkur útgjöld, fyr en sérstakur læknir er skipaður í héraðið. En að ætla sér, að einhver læknir muni sækja um Nauteyrarhérað að eins að gamni sínu, eða til þess að nágrannalæknir geti síðar náð í tekjurnar, svo sem mér skildist á ræðu háttv. 2. þm. S. Múl., (J. Ó.), virðist lítt hugsanlegt, og eigi sem góðgjarnlegust tilgáta.

Hvað aðstoðarlækninn á Ísafirði snertir, þá hefir Nauteyrarhérað ekkert gott af honum, því að eins og eg áður hefi nægilega sýnt fram á, þá eru það örðugleikarnir, sem mestu valda, og þeir minka ekki, þótt tveir læknar séu á Ísafirði. — Og þó að ráðist sé í það, þrátt fyrir gífurlegan kostnað, að vitja læknis til Ísafjarðar, þá er mjög hæpið, að hann eigi heimangengt, þótt tveir læknar séu á Ísafirði, því að þeir hafa alloftast ærinn starfa í Ísafjarðarkaupstað og sveitunum, sem næstar eru, enda eykur sjúkrahúsið á Ísafirði þann starfa að mun. Má í þessu sambandi geta þess, að í

Bolungarvíkur-verzlunarstað eru menn ekki ánægðari en svo að þurfa að vitja læknis til Ísafjarðar, að þeir vilja jafnvel leggja fram úr eigin vösum 800— 1000 kr. árlega, til að fá lækni þar. En þar sem læknar á Ísafirði eru svo önnum kafnir, að þeir geta ekki fullnægt þörfum manna í Bolungarvík, hlýtur þá eigi öllum að vera ljóst, hve miklum mun ver muni ástatt í Nauteyrarhéraði, sem er í miklu meiri fjarska?