02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Eiríkur Briem:

Það er einmitt þetta atriði, sem háttv. 4. kgk. þm. talaði um síðast, seinni breyt.till. á þgskj. 371, sem eg vildi minnast á. Eg get ekki viðurkent, að í henni felist nein rétt »princip«-krafa né heppileg. Miklu fremur ætti löggjöfin að fara í þá átt, og það væri rétt »princip«, að allir gætu skorast undan slíku starfi. Réttmætast er, að kostnaður og erfiði við sveitarstörf leggist jafnt á alla, sem sveitarbyrðar eiga að bera, en ekki sérstaklega þungt á einstaka menn. Það eru hreint og beint leifar frá þeim tímum, er menn lögðu störfin á sem skyldur í stað þess að borga þau; væru þau borguð, sem vert er, væri engin vandræði að fá menn í þau. En þess ber ennfremur að gæta, að það er misjafnt, hve þungt skyldurnar geta komið niður á einstökum mönnum. Allir virðast sammála um það, að ekki megi skylda vinnumenn til að taka við kosningu, af því að þeir eru í þeim kringumstæðum, að þeir geta ekki fullnægt þeirri skyldu. En einmitt það sama á sér stað um konuna. Hún er svo tengd við hag heimilisins, að það hefir aðra þýðingu, að rífa hana frá því en karlmanninn, og getur gert mikið ógagn. Menn tala um að skyldur og réttindi eigi að fylgjast að. Það getur ekki verið stílað til þeirra kvenmanna, sem helzt vilja vera lausar við réttindin, eða kæra sig ekkert um þau. Það á að stílast til þeirra, sem mest sækjast eftir réttindum í opinberum málum, en ekki til hinna, sem ekki hafa áhuga á þeim. Eg vil að þær, sem vilja, megi gefa kost á sér til kosninga, og ekki sé fyrirmunað að kjósa þær þeim, sem bera traust til þeirra, en á hinn bóginn geti þær sloppið við kosningu, sem vilja. Það kæmi ekki að eins illa niður á þeirri einstöku konu, heldur heimilinu öllu, ef hún væri neydd til að taka við kosningu. Það opinbera vald grípur hér inn í rétt heimilisins, og því álít eg það sérstaklega varhugavert. Eg álít rétt, að hver sem er, hvort heldur er karl eða kona, sem hefir hæfileika til að taka þátt í almennum málum og treystir sér til þess, megi gera það, en hins vegar álít eg, að kvenfólkið sé á skakkri leið, ef það sækist eftir því. Eg álít það væri hin mesta afturför, ef sú stórkostlega verkaskifting breyttist, sem verið hefir um allan aldur milli karla og kvenna, og má heita að sé orðin kynföst. Fyrst gera allir alt. En með vaxandi menningu vex verkaskiftingin. Sú fyrsta verkaskifting var milli karla og kvenna. Konur hafa alt af verið, og eru enn, færari um sum störf en karlmenn, og þá sérstaklega uppeldi barna. Eg álít það væri stór afturför fyrir mannkynið, ef þessi mismunur minkaði. Enda er það stór misskilningur, að sú kona geri meira gagn, sem skiftir sér af almennum málum, en hin, sem hugsar um heimilið og börnin, og undir býr hina komandi kynslóð undir lífið. Eg álít það afar-þýðingarmikið, að ekki sé farið inn á þá braut, að taka konuna nauðuga frá heimilinu, enda sé eg alls ekki, að það sé nein nauðsynleg afleiðing af kosningarrétti og kjörgengi þeirra.

Ef einhver kona hefir áhuga á almennum málum og traust annara, þá er rétt að það sé heimilt, að kjósa hana, en á hinn bóginn finst mér jafn sjálfsagt, að ekki megi neyða neina konu til að taka kosningu, ef hún vill það ekki sjálf.