26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Sigurður Sigurðsson:

Mér hefir því miður ekki tekist vegna annríkis að koma fram með breyt.till. í þessu máli.

Eg vil meðal annars vekja athygli á 2. gr. frv., þar sem sagt er að kaupmenn megi taka unglinga 12 ára í þjónustu sína. Þetta tel eg miður heppilegt og enda skaðlegt. Álít að þessir unglingar megi ekki vera yngri en 14 ára eða um fermingaraldur, þegar þeir ráðast sem lærlingar. Þá stendur í 7. gr., að vinnutími þessara unglinga skuli jafnan vera 12 stundir á dag, og jafnvel að vinnutíminn megi vera enn lengri.

Þetta held eg sé alt of langur vinnutími fyrir unglinga á þessu reki. Mönnum hlýtur að skiljast, að það eru engin sældarkjör, að standa í búð allan liðlangan daginn. Almennur vinnutími við alla opinbera vinnu, vegagerð o. fl., eru 10 stundir á dag, og til sveita er almennur vinnudagur 12 stundir. Það má því ekki minna vera heldur en að þessum verzlunarnemum sé ekki gerður lengri vinnutími en verkafólki alment.

Það mundi ekki ósanngjarnt, að þetta fólk, sem hér er um að ræða byrjaði vinnu kl. 7—8 að morgni og hætti samtímis að kvöldi, en hefði innan þessa tímatakmarks 2 stundir til matar og hvíldar.