26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Jón Ólafsson:

Eg held að athugasemdir hins háttv. þm. Snæf. (S. G.) sé helzt til mikill misskilningur eins og hjá háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) Það er óþarfi að taka fram það sem stendur í almennum landslögum. Ef þyngri hegning liggur við, þá verður hlutaðeigandi að dæmast eftir þeim almennu hegningarlögum. Það liggur svo í augum uppi og það er ekkert fögur lagasmíð að vera að taka upp jafn sjálfsögð atriði. Við ótilhlýðilega hegðun í 10. gr. er auðvitað átt nemandans. Það sést svo ljóslega á sambandinu, að mig furðar stórlega á að jafnglöggur maður og hinn h. þm. Snæf. (S. G.) hefir misskilið það.

Í 13. gr. er gert ráð fyrir gerðardómi, sem geri út um ágreining milli nemanda og verzlunarstjórnanda út af námssamningi. Gerðardóminn skipa í kaupstöðum 2 kaupmenn eða verzlunarstjórar, sem verzlunarstjórnandi útnefnir og 2 verzlunarmenn, sem nemandi útnefnir. Bæjarfógeti eða sýslumaður er sjálfkjörinn oddamaður. Aftur á móti í útkaupstöðum er ekki unt að fá svo marga verzlunarfróða menn útnefnda á einum stað og útnefnir sýslumaður þá mennina. Úrskurður gerðardómstólsins er bindandi fyrir báða málsaðila. Annars skal eg eigi fara fleiri orðum um frumv. þetta, því að það er ekki mitt verk, en eg hefi mælt fyrir því af því, að frams.m. (M. Bl.) er lasinn og ekki við. Við 3. umr. mun hann vonandi hafa tækifæri til að mæla með því röggsamlegar.