26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Jón Ólafsson:

Eg skal geta þess viðvíkjandi athugasemdum háttv. þm. S. Þing. (P. J.), að nefndin getur fallist á athugasemdir hans við 3. gr. og sömuleiðis að orða skýrar ákvæðin í 11. gr., þó það sé auðvitað, að þegar námssamningi er löglega slitið, þá á nemandinn heimtingu á því, að honum sé reiknaður sá tími, ef hann ræður sig hjá öðrum. Hins vegar vildi eg benda á það alment, að það væri æskilegt að þm. reyndu að átta sig á frumvörpunum, áður en 2. umr. er lokið, til þess að ekki þurfi að koma með breyt.till. við 3. umr., því að samkvæmt þingsköpunum eiga breyt.till. helzt að koma við 2. umr.