29.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Er nefndin samdi þetta frv. var það auðvitað von hennar, að þetta gæti orðið til bóta og hún myndi gera til hæfis öllum, sem vit hafa á máli þessu. En að því er háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) snertir, var slíkt ómögulegt, því hann hefir ekkert vit á þessu. Í nefndinni sátu 4 verzlunarfróðir menn, sem vita ættu betur en hann, hvað bezt hentar í þessu máli. Er mjög einkennilegt að bera fram annað eins og að ekkert nýtt eða til bóta sé í frumv. þessu, og kveðst hann hafa borið þetta saman við lög frá 16. sept. 1893. Nú vill svo óheppilega til fyrir háttv. þm., að breytingarnar eru allar til hagsmuna og tryggingar fyrir nemendur, t. d. takmörkun vinnutímans. Vinnuveitanda er og gert að skyldu að veita nemanda fræðslu; sé verzlunarskóli á staðnum skal nemendum veittur nægilegur tími til náms og séð fyrir ókeypis kenslu. Enn fremur virðist gerðardómurinn muni styrkja afstöðu nemenda, þar eð í honum sitja jafnmargir af hvorum flokki, kaupmanna og verzlunarmanna, með bæjarfógeta sem stak, og ætti það ekki að veikja veikara partinn. Held eg að blindur dæmi um lit, er háttv. þm. segir slíkt; sýni hann fram á með rökum, að hann fari með rétt mál, en láti sér að öðrum kosti sem minst um munn fara af slíkri heimsku. Sé eg ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um þetta, fyr en eg hefi heyrt röksemdir 2. þm. Árn. (S.S.).