17.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

46. mál, verslunarbækur

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Það er ekki mikið að segja um þetta mál, því að í nefndarálitinu er gerð grein fyrir breytingartillögum, sem komið hafa frá nefndinni, og þær eru bæði fáar og smáar; og frá öðrum en nefndinni hafa engar breyt.till. komið. Sumum hefir þótt það athugavert við frv., að frumbók skuli vera löggilt, því að nú sé tekinn upp sá siður, að nota litlar bækur fyrir frumbók, sem svo eru rifin upp úr blöðin og fær kaupandi annað en seljandi heldur hinu. Í öllum löndum, þar sem bækur eru löggiltar, er einmitt frumbókin löggilt, enda ríður mest á, að hún sé áreiðanleg. Nefndin vissi um þessar litlu bækur, en fanst að það væri ósköp hægt fyrir þá, sem þær hafa, ef þeim þykir of dýrt að löggilda svo margar smábækur, þá að láta gera bækurnar stærri, t. d. með 1000 duplicat-blöðum. Tiltök gætu og verið, að breyta lögunum um gjald fyrir löggilding verzlunarbóka þannig, að gjaldið fyrir löggilding frumbóka væri lækkað frá því sem nú er.