19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jósef Björnsson:

Eg hefi leyft mér að koma fram með tvær breyt.till. við fjárlagafrumvarpið eins og það kemur frá háttv. Nd., og eru þær báðar viðaukatillögur, önnur á þingskj. 494, en hin á þingskj. 495; eg skal leyfa mér að gera grein fyrir þessum tillögum í stuttu máli.

Fyrri tillagan er um það, að landsjóður leggi til greiðsluálags á Viðvíkurkirkju 400 kr. fyrra ár fjárhagstímabilsins. Á þessari umsókn stendur þannig, að þegar Hofstaðaþing voru lögð niður árið 1861 og Flugumýrarsókn lögð við Miklabæjarsókn, þá voru makaskifti höfð á Hjaltastöðum og Viðvík og Viðvík gerð að prestssetri. Árið eftir (30. júni 1862) var prestssetrið og kirkjan í Viðvík tekin út og gert 200 ríkisdala álag á kirkjuna. Á næstu árum á eftir fara hlutaðeigendur fram á við þáverandi biskup, Helga Thordarsen, að fá álagsupphæðina borgaða, en hann færist undan því í bréfum sínum að eiga í þessu máli og þar við dróst það; og allan þann tíma sem Páll Jónsson var prestur í Viðvík var því ekkert hreyft, og það var fyrst eftir að Zóphonías prófastur Halldórsson var kominn þangað, að farið var að hreyfa málinu aftur. Það var á síðari árum Péturs biskups Péturssonar, og hann gerði sitt til að greiða fyrir málinu, en landshöfðingi færðist undan og varð því eigi úr því, að álagið fengist borgað. Nú hefir málið enn legið kyrt um nokkur ár og það er fyrst eftir að Zóphonías Halldórsson er látinn og söfnuðurinn tók við kirkjunni, að hreyfing kemur á málið að nýju. Sóknarnefndin skrifar biskupi síðastl. ár, en hann leggur málið fyrir stjórnina og mælir með því. Stjórnin svarar að hún sjái sig ekki hafa heimild til að greiða álagið. Þetta svar stjórnarinnar tilkynnir biskup sóknarnefndinni og bendir jafnframt á, að eini vegurinn til að fá málinu framgengt sé, að fela þingmönnum héraðsins að bera það fram á þingi. Í því skyni hefir svo prófastur aftur skrifað núverandi biskupi og biskupinn skrifar erindi til alþingis, þar sem hann telur það engum efa bundið, að þetta sé réttmætt mál. Hann stílar bréfið til mín og kemst svo að orði:

»Nú vekja nýir menn upp þessa gömlu en ófyrndu kröfu, og herðir það á, hvað kirkjan er fátæk. Hún var í meir en 400 kr. skuld er síra Zóphonías féll frá í ársbyrjun 1908 og kirkjuhúsið er orðið meira en 20 ára gamalt og verður litlum sjóði safnað, er reisa þarf að nýju«.

Og hann segir ennfremur:

»Vona eg að óskir safnaðarins að fá þessar 400 kr. greiddar kirkjunni fái góðan byr í þinginu«.

Eg skal nú ekki bera um það, hvort hér er að ræða um lagalega réttarkröfu, en eg vona, að eg hafi sýnt fram á, að hér er um réttmæta og eðlilega kröfu sóknarnefndar að ræða. Eg skal í þessu sambandi einnig leyfa mér að geta þess, að mér finst því meiri ástæða til að veita þessar 400 kr., þar sem kirkjan er nokkuð forn orðin — hún er um 20 ára gömul —, og stóð í talsverðri skuld (4—500 kr.) þegar söfnuðurinn tók við henni. Eg vænti því hins bezta í þessu, og vona að háttv. deildarm. fallist á fjárveitingu þessa.

Hin tillagan, sem stendur á þingskj. 495, er þess efnis, að þingið veiti 500 kr. styrk fyrra árið til Hólasóknarmanna til að standast kostnað við kirkjugarðsbyggingu úr steinsteypu um Hólakirkju. Um það mál skal eg leyfa mér að fara nokkrum orðum háttv. deildarmönnum til skýringar. Hólakirkja er, eins og flestum deildarmönnum mun kunnugt, steinkirkja, bygð árið 1762; hún er ein af stærstu og merkilegustu byggingum þessa lands og hefir auk þess að geyma ýmsa af hinum dýrmætustu gripum þessa lands, svo sem altaristöflu þá hina miklu, sem sagt er að Jón biskup Arason hafi fengið að gjöf frá sjálfum herra páfanum fyrir trú sína og hollustu. Eg skal nú ekki segja um, hvað satt er í þessu, en hitt er satt, að taflan er merkilegur gripur og svo er um ýmsa aðra gripi, sem þar eru, t. d. legsteina yfir ýmsum allra mætustu mönnum lands vors, svo sem Guðbrandi Þorlákssyni og fleirum, skírnarfontinn stóra o. fl. Þetta, að kirkjan er svona gömul og merkileg og geymir svona margar og merkilegar menjar, gerði það, að sóknarmenn réðust í það að byggja um hana garð sem henni væri sæmilegur. Það gerðu þeir af þeirri þjóðrækni, sem flestir verða snortnir af, þegar þeir skoða kirkjuna og það sem hún hefir að geyma. Það var þegar ráðið að byggja garðinn úr steinsteypu, eins og gert hefir verið; var lokið við verkið 1908. Hann er 308 álna langur, l¼ alin á hæð og 8½ þumlungur á þykt, úr sterkri steinsteypu, og hann er bygður á grunnmúr, sem er grafinn 1½ alin niður og sú gröf fylt með grjóti. Verkið kostaði 2300 kr., og þegar þess er gætt, að mannfjöldi í sókninni er ekki meiri en það, að þar eru alls 187 menn fermdir, þá er það auðsætt, að hér hafa allfáir menn af ræktarsemi við húsið og það sem það hefir að geyma lagt á sig há gjöld. Þegar garðurinn var enn ekki fullgjör, fóru sóknarmenn fram á, í bréfi sem sóknarnefndin skrifaði til biskups 20. desember 1907, að einhver styrkur fengist til þessa verks, t. d. svo mikið, að það nægði til að koma í garðinn fallegu járnhliði, sem honum væri samboðið. Þetta erindi er sent til Zóphoníasar prófasts Halldórssonar, en að honum látnum tekur Arni prófastur Björnsson að sér að mæla með þessu til biskups; en biskup sendir það til stjórnarinnar og leggur þar með meðmæli sín. Þar er ekki farið fram á neina ákveðna fjárupphæð, heldur eitthvað, t. d. eins og svara myndi járnhliði. Þegar verkinu er lokið, er biskupi skýrt frá því og þar með látið fylgja, að héraðsfundur Skagfirðinga mæli með styrk í þessu tilefni. Samt kom ekki fram nein uppástunga um ákveðna fjárupphæð. En biskup stingur upp á að veittar verði 500 kr. upp í þennan kostnað. Hann bendir um leið á, að jámhliðið muni kosta hátt á 4. hundrað króna, svo hér er ekki farið fram á meira en það, sem hér um bil nemur verði jámhliðsins, með öðrum orðum það, sem sóknarnefndin fór fram á í fyrstu. Eg get getið þess, að biskupi fórust svo orð eftir að hann hafði fengið nákvæma lýsingu af garðinum, að ekki væri nema eðlilegt og réttlátt að veita Hólasóknarmönnum 500 kr. í viðurkenningarskyni fyrir svo mikið mannvirki og af svo miklum þjóðræknishuga unnið Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þessar viðaukatillögur minar; eg vona að eg hafi skýrt þær nægilega og háttv. þdm. hafi ekkert á móti þeim.

En áður en eg sezt niður, skal eg leyfa mér að skjóta inn örfáum orðum að því er snertir br.till. nefndarinnar um að veita 18500 kr. f. árið til byggingar skólahússins á Hólum. Hér er óhætt að segja, að þau skjöl og skilríki liggja fyrir, sem sýna að þetta er nauðsynjaverk, enda hefir framsögumaður talað svo rækilega um þetta, að það er eigi þörf á að tala meir um það, en eg vildi drepa á hvernig ástatt er um húsakynnin nú. Húsið er svo lítið, að það hefir orðið að vísa frá 10—20 umsækjendum á hverju ári nú um allmörg ár undanfarið, þrátt fyrir það þó húsið hafi verið troðfylt svo sem hægt er, og jafnvel svo, að heita má óforsvaranlegt. Það er t. d. ekkert herbergi til, þar sem veikur maður verður látinn liggja, nema með því að færa rúm sjúklingsins inn í þá einu litlu safnstofu, sem skólinn á og hefir til þess að geyma í kensluáhöld sín. Og eg get skýrt frá því — án þess eg sé að kvarta hvorki mín né annara kennara skólans vegna — til þess að lýsa húsakynnunum, eins og þau eru bæði fyrir kennara og nemendur skólans, að eg sjálfur hefi ekki meira húsrúm þar sem kennari en svo, að að eins er hægt að smeygja sér aftan við rúmið mitt í því eina herbergi sem eg hefi þar, og að frá rúminu að hinum hliðarveggnum er eigi meira en ein rúmbreidd. Þetta bendir á hve lítið húsrúmið er, og að sízt er vanþörf á að bæta það. Eg vona þess vegna, að háttv. deildarmenn sjái sér fært að stuðla að því, að þessi fjárveiting fáist. Og þó ekki væri farið frekar í sakirnar að þessu sinni en svo, að skólinn yrði að bíða eftir leikfimishúsi, sem auðvitað líka er þörf á, þá er þó mest um vert, að ekki þurfi að vísa umsækjendum frá skólanum vegna skorts á húsrúmi, því skólinn hefir þegar áunnið sér óbilugt traust manna, eins og hin mikla aðsókn að skólanum bezt sýnir.