29.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

30. mál, girðingar

Björn Þorláksson:

Eg ætla að minnast lítillega á 7. gr. síðari hluta hennar, um traðir. Þykist eg skilja, hvers vegna þetta ákvæði er sett inn, nefnilega til þess að eigi verði tjón af girðingunum á þeim stöðum, þar sem mikil umferð er, en þetta er óþörf hræðsla. Eg veit þess sjálfur dæmi, að mjóar traðir eru vírgirtar til þess að varna hestum og kúm að fara í túnin, og að aldrei hefir komið að sök. Ef nú væri bannað að hafa slíkar girðingar, myndu túnin standa girðingarlaus, eða ef garð ætti að hlaða undir vírinn, eins og lögin ætlast til, þyrfti að flytja efni að oft langar leiðir og er slíkt mikill kostnaðarauki. Óska eg helzt, að feldur væri partur aftan af greininni, eins og breyt.till. mín fer fram á. Veit eg um svona girðingar, er staðið hafa í 10 ár, að aldrei hafa þær orðið að tjóni, og er því meiningarlaust að amast við þeim. Annars finst mér þetta atriði svo lítilfjörlegt, að óþarfi sé að eyða mörgum orðum um þetta, og segi því eigi meira.