16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

31. mál, hagfræðisskýrslur

Framsögumaður (Björn Kristjánsson):

Nefnd sú, sem kosin var til að íhuga verzlunarmálefni, hefir leyft sér, að koma með frumv. þetta. Það hefði átt að vera komið löngu fyr inn á þing frumv. um þetta efni, og nefndinni þótti það vera búið að dragast nógu lengi. Menn hafa oft furðað sig á því, að vörur þær, er til landsins flytjast, eru stórum meira virði að krónutali en þær er útflytjast úr landinu. Þetta kemur af því, að í aðflutningsskýrslunum eru vörurnar reiknaðar með smásöluverði, að viðbættum tolli. En þetta er hin mesta fjarstæða, og hefir líklega komist inn í lögin af því, að menn hafa ekki gert sér ljóst, að hér stendur öðruvísi á en víðast annarstaðar í heiminum, að hér er að eins eitt útsöluverð til, þar sem útsöluverðin eru tvö annarsstaðar, stórkaupa- og smákaupa verð. Á Íslandi er engin »Börs«, og ekkert stórkaupaverð, og þarafleiðandi ekki annað verð en smásöluverð. Með öðrum orðum: Skýrslurnar hér sýna smásöluverðið að viðbættum tolli, en útlendu skýrslurnar munu sýna verð stórsalanna, þeirra, sem aðallega flytja vörurnar inn í löndin, enda er það ekki venja þar að heimta útsöluverðskrá af smásölum. En samkvæmt því er rétt, að vér byggjum skýrslur vorar á útsöluverði stórkaupmanna til vor, að viðbættum flutningskostnaði, svo fremi, sem vér ekki viljum gera oss far um, að spilla lánstrausti voru í útlöndum. Nefndin hefir því stungið upp á, að í stað skýrslnanna um smásöluútsöluverð ásamt tolli komi skrá yfir innkaupsverðið að viðbættum flutningskostnaði. Hinu þótti ekki ástæða að breyta, þ. e. skýrslum um útfluttar vörur, því að þær eru taldar eftir innkaupsverði — og er það rétt.

Útlendingarnir, sem gagn eiga að hafa af skýrslunum skilja að eins tölurnar, sem þeir sjá, og getur það mjög spilt lánstrausti voru.

Árið 1902 voru fluttar vörur til

landsins fyrir kr. 10,737,480

en útfluttar fyrir — 9,199,499

1903: innfluttar vörur... — 11,938,294

útfluttar vörur ... — 8,985,507

1904: innfluttar vörur... — 11,778,555

útfluttar vörur ........... — 8,742,190

1905: innfluttar vörur. .....— 14,466,931

en útfl. vörur ..... ...........— 12,103,866

1906: innfluttar vörur.......—16,667,177

útfluttar vörur ............— 12,226,767

Á 5 árum 1902—1906 var þannig virði aðfluttrar vöru 14,326,708 kr. hærra en útfluttra.

Þetta gæti verið mikill lánstraustsspillir, því að ef þannig héldi áfram í 20 ár, þá myndi öll þjóðareignin ekki gera betur en hrökkva fyrir fjárhagshallanum, er hlyti þá að vera orðinn með þessu áframhaldi. Vona eg því að þingið athugi þetta, og að háttv. deild fallist á frumv.

Þá leggur nefndin til, að kaupmenn skýri frá, frá hvað landi þeir kaupi vörurnar, svo hægt sé að sjá í hvaða átt viðskiftin beinast. Eftir núgildandi lögum sést að eins hvar varan kemur á skipsfjöl, sem enga þýðingu hefir að vita um.

Í sambandi við þetta hefir nefndin lagt það til, að aukið sé við skýrslum um það, hvaða vörumagn flytst að hverri höfn á landinu, miðað við stykkjatölu, tegund, vigt eða teningsmál; getur verið nauðsynlegt að hafa skýrslur um þetta, þegar um það er að ræða að ákveða samgöngur til hinna ýmsu hafna. Eins gæti það orðið til leiðbeiningar, ef menn hugsuðu sér að leggja skatt á hleðsluskírteini (conossement) eftir stykkjatölu eða vigt. Og í því skyni, að geta fengið áreiðanlegar skýrslur um þetta, er afgreiðslumönnum skipa uppálagt, að afhenda lögreglustjóra staðfestan útdrátt úr hleðsluskrám (manifest) eða hleðsluskírteinum, sem koma í þeirra stað.

Nú sem stendur vitum vér ekki, hve mörg tonn eru flutt af vörum til landsins, vér vitum að eins um það, hve mörg tonn skipin bera og rúma, sem til landsins koma.

Eg skal benda á, að 2 orð hafa misprentast, en það verður vonandi leiðrétt.

Hér er það nýmælið ekki hvað minst, að kaupmönnum öllum og öðrum, er reka skuldaverzlun er gert að skyldu, að láta stjórnarráðinu í té skrá yfir skuldir og innieignir sínar, þ. e. samanlagða upphæð skulda og innieigna, eins og þær eru 31. desember ár hvert.

Það kynni nú sumum að virðast, að þetta gangi of nærri einstökum mönnum, en nú vill svo til, að tveir þeirra manna, er í þessari nefnd voru, eru verzlunarmenn, sem reka skuldaverzlun, og þeim þótti ekki neitt athugavert við þetta ákvæði. Það mun því vera alveg hættulaust að samþ. þetta ákvæði.

Það er mikilsvert að vita um skuldir manna og inneignir í lok hvers árs. Ef menn vita um, hvað þjóðin skuldar kaupmönnum, 31. des. ár hvert, þá geta menn séð, hvað hún skuldar bönkunum, þar sem reikningar þeirra eru uppgerðir þann dag. Og hvað ætti að vera nauðsyn, ef ekki það, að geta fengið áreiðanlega vitneskju um, hvort skuldir eru að vaxa eða minka í landinu. Vona eg því, að h. deild samþykki þessi nýmæli, er í frumv. þessu felast.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en mun gera frekari grein fyrir því, ef einhver andmæli kynnu að koma fram.