26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

31. mál, hagfræðisskýrslur

Framsögumaður (Björn Kristjánsson):

Eg benti á breytingar þær, er gerðir hafa verið, þegar við 1. umr. Það var breyting sú á 5. gr. í 1. málsgr., þar sem kaupmönnum er gert að skyldu, að láta hlutaðeigandi stjórnarvöldum í té sem nákvæmastar skýrslur um það, hverjar vörutegundir, og hve mikið af hverri þeir hafi flutt til landsins og frá því, svo og innkaupsverð vörunnar og flutningskostnað til landsins, og tilgreina, hvar vörurnar eru keyptar. Benti eg á, að hinn rétti mælikvarði, sem fylgja bæri í þessu, væri innkaupsverð stórkaupmanna ytra, að viðbættum áföllnum kostnaði. Aðalbreytingin í þessari grein er sú, að mönnum er uppálagt að skýra frá, frá hvaða landi vörurnar koma, og eiga að gefa það upp, hvar sem þeir kaupa þær. Með þessu fæst betra yfirlit yfir hvert einstakt land.

Þá kemur 2. gr., sem er um skyldu skipa-afgreiðslumanna, kaupmanna, pöntunarfélaga og annara, er taka á móti farmskrám, frá ársbyrjun 1909, að láta hlutaðeigandi lögreglustjóra í té lista yfir aðfluttar vörur, svo og með hvaða skipi þær hafa komið, nafn viðtakanda, stykkjatal, tegund, vigt eða teningsmál varanna á farmskránni. Þetta er nauðsynlegt, þegar ákveða á, hve mikið pláss vörurnar taka. Þess vegna verður lögreglustjóri að krefjast þess af afgreiðslumanni, að hann gefi þetta upp. Þetta er svo áríðandi, að sektir eru viðlagðar, ef út af er brugðið.

Í 3. grein er talað um, ef einungis ein farmskrá fylgir skipi, sem flytur vörur til fleiri en einnar hafnar, hvernig með skuli farið.

Í 4. gr., er kaupmönnum, forstöðumönnum verzlana, kaupfélaga og iðnaðarfyrirtækja lagt á herðar, að gefa stjórnarráðinu áreiðanlega skýrslu um skuldir og inneignir hérlendra viðskiftamanna sinna, að undanteknum bönkum, eins og þær eru 31. des. ár hvert. Þessar skýrslur skal stjórnarráðið birta þannig, að einungis sjáist samanlagðar skuldir og inneignir hvers kauptúns fyrir sig, án þess að nefna nöfn verzlana. Þetta virðist mörgum kanske nærgöngult, en við álítum það nú ekki, einkum þar eð það ekki fer annara á milli en hlutaðeigandi verzlana og stjórnarráðsins. Það er afarnauðsynlegt til þess að vita um efnahag manna í landinu. Eins og nú er, geta menn ekki séð, hvort efnahagur batnar eða ekki innanlands.

Eg hefi ekki meira að segja um þetta, en vona, að þetta verði mikil bót frá því er áður var.