17.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

7. mál, háskóli

Framsögumaður (Lárus H. Bjarnason:

) Breyt.till. eru að vísu nokkuð margar, þær eru 24 á einu þskj. og 2 á tveim öðrum þskj., sín á hvoru. En eg get samt verið stuttorður, því að breyt.till. eru allar frá nefndinni, engin frá öðrum þingdeildarmönnum, og 21 af þeim eru blátt áfram orðabreytingar, sem eru gerðar sumpart til þess að breyta til betra máls, aðrar til að kippa burt hortittum og nokkrar til þess að koma á samræmi, með því að hafa einatt sama orð um sama hugtak.

Efnisbreytingarnar eru að eins þrjár. Fyrsta efnisbreytingin er 22. breyt.till. á þskj. 173, um að ákvæði 29. gr. um próf sem skilyrði fyrir embættisgengi falli burt. Slíkt ákvæði á fyrst og fremst ekki heima í háskólalögunum, enda er það hvorki tekið upp í háskólalögin norsku né tilskipunina um háskólann danska. Það er eðlilegast að það sé ákveðið með sérstökum lögum, hvað útheimtast skuli til þess, að geta fengið embætti, enda er það svo í öðrum löndum. Dönsk tilskipun frá 26. jan. 1821, er brúkuð hefir verið hér á Íslandi, tiltekur t. d. prófskilyrði laga embættismanna. Og svo væri það mjög svo æskilegt og enda nauðsynlegt, að embættisgengi á Íslandi væri bundið við próf héðan.

Önnur efnisbreytingin er við 31. gr. í frumv. stendur að hver sá, sem æskir doktorsnafnbótar, skuli hafa leyst af hendi embættispróf. Þetta er of hart. Að vísu má búast við því, að sá, sem æskir doktorsnafnbótar, hafi að jafnaði leyst af hendi embættispróf. En vísindamaður getur maður verið, þótt próflaus sé; þess vegna leggur nefndin til að próf sé aðeins heimtað »að jafnaði«. Og er þá ekki girt fyrir, að próflausir vísindamenn geti orðið doktorar.

Þá er þriðja og stærsta efnisbreytingin. Bæði hæstv. ráðherra og allir forstöðumenn embættaskólanna, voru á eitt sáttir um það, að láta háskólalögin ganga í gildi 17. júní 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Nefndin er og á einu máli um það, að háskólinn ætti að komast á sem allra fyrst á laggirnar, og að það væri einkar hugðnæmt að geta bundið göngu skólans við þenna dag. En þurfi að byggja hús yfir skólann, þá er ekki líklegt að það geti orðið til taks á þeim degi. Nefndin sá sér því ekki annað fært en að leggja það til, að skólinn tæki þá fyrst til starfa, er fé væri veitt til hans á fjárlögunum, líkt og ákveðið var í lögunum um stofnun lagaskóla. Enda þótt nefndin hafi þannig breytt frumv., vonar hún samt að skólinn geti tekið til starfa á tilteknum degi. Hún vonar að tiltækilegt verði að notast við efri bygð mentaskólans í bráðina. Þar eru 11 herbergi, eins og eg drap á á dögunum. Í rektors-íbúðinni gömlu uppi á loftinu býr að vísu einn kennari, en honum mætti byggja út. Auk þess eru nú einnig kenslustofur fyrir 5. og 6. bekk uppi á loftinu, en þá bekki mætti flytja niður, er umsjónarkennarinn flytti úr skólanum. Vitanlega þyrfti að útvega þessum mönnum íbúð í bænum og mundi það kosta um 400 kr. fyrir hvorn, eða samtals 800 kr. En hinsvegar mundi fást í aðra hönd húsaleiga sú, er embættaskólarnir nú borga, sem sé 1360 kr. fyrir lagaskólann og læknaskólann. Og svo mætti gera sér töluverðan mat úr prestaskólanum og þeirri lóð er hann stendur á; það er góð lóð og dýr, um 20,000 kr. virði með húsinu, að því er gizkað er á. Væri þetta fé ávaxtað með 5%, gæfi það 1000 kr. á ári, og sparaðist þá alls 2360 kr. eða öllu heldur 2500 kr., því að húsaleiga fyrir lagaskólann mun framvegis ekki verða undir 500 kr., og þó maður dragi þar frá húsaleigustyrk mentaskólakennaranna, þá yrði samt afgangs um 1700 kr.

Það er lítill vafi á því, að þessi 11 herbergi mundu nægja í bráðina fyrir 4 deildir háskólans; presta-, laga- og heimspekisdeildinni nægir hverri um sig 2 herbergi. Þá eru 4 herbergi fyrir læknaskólann og þó 1 afgangs sem kennarastofa. Þannig ætti að vera vinnandi vegur að notast við mentaskólahúsið í bráðina. Það þyrfti ekki miklu að breyta. Æskilegt væri að vísu, að settur væri inngangur upp á loftið á suðurgaflinn, þar sem glugginn er nú, en þess ætti einu sinni ekki að þurfa með. Stúdentarnir og lærisveinar mentaskólans ættu að geta notað sömu dyrnar.

Eg sé ekki betur en með þessu fyrirkomulagi mætti byrja skólann á sama tíma og ákveðið er í stjórnarfrv.; hafi eg skilið nefndina rétt, þá var hún eindregin með því. Vitanlega má draga stofnun háskólans í framkvæmdinni, verði breyt.till. nefndarinnar samþykt, því að með henni er háskólinn aðeins bréf-festur, og fjárveitingarvaldið hefir töglin og hagldirnar, en eftir öllum atvikum mun hér við verða að sitja.

Breyt.till. á þskj. 235 er eðlileg afleiðing af 22. og 24. breyt.till. á þskj. 173. Þegar lagaskólinn er lagður niður, er ekki hægt að heimta aukapróf við þenna skóla fyrir lagakandídata frá Khöfn., en þar með á ekki að niður falla það aukapróf, sem tilskilið er í lögunum um stofnun lagaskóla.

Um breyt.till. á þskj. 236 er það aðeins að segja, að orðinu »numin« er ofaukið. Eg finn svo ekki ástæðu til að fara nánar út í breyt.till. nefndarinnar að svo stöddu. Hún hefir rætt frumv. ítarlega á mörgum fundum, og vonar að háttv. deild taki því vel.