19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

33. mál, botnvörpuveiðar

Hannes Hafstein:

Eg vil vekja athygli háttv. þingd. á því, að varhugavert getur verið, að veita slíkar undanþágur. Þær hljóta að gera eftirlitið miklu örðugra, því að því miður eru íslenzkir botnvörpungar ekki alveg lausir við þá freistingu að veiða í landhelgi. Í fyrra kom beiðni um þetta til mín frá íslenzkum botnvörpuskipstjórum. Eg bar það undir yfirmanninn á »Islands Falk«, sem þá var, kaptein Jöhncke, og hann taldi mikil vandkvæði á því. Það er satt, að svipuð ákvæði gilda í Noregi, en þau lög eru svo ný, að engin reynsla er fengin fyrir þeim. Þess er og að gæta, að hér er strandlengjan svo stór, en varðskipið að eins eitt. Það er einmitt þetta ákvæði, að botnvörpungar séu skyldir til að hafa veiðarfæri sín í búlka, er þeir eru í landhelgi, sem gerir mögulegt, að hafa hendur í hári lögbrjótanna í mörgum tilfellum. Það er tíðast, að botnvörpungar dragi inn vörpur sínar í snatri, er þeir sjá til eftirlitsskipsins, hraða sér burt og þykjast alls enga ólöglega veiði hafa haft í frammi. Þá er það oft eina sönnunargagnið gegn þeim, að veiðarfærin eru í ólagi, vot, og kanske fiskur í þeim; má þá í öllu falli sekta þau fyrir þetta, eftir því ákvæði laganna, sem hér er um að ræða.

Eg hefi leitað upplýsinga um, hversu mikla fyrirhöfn skipin hefðu fyrir því að fullnægja þessum fyrirmælum, og sagði bæði kaptein Jöhncke og fleiri, er eg spurði um þetta, að ekki færu meira, en svo sem 10 mínútur í hvert skifti í það að draga inn veiðarfærin og koma þeim fyrir, svo lögmætt væri. En fyrir utan það, að eftirlitið verður örðugra, ef undantekning er gerð fyrir íslenzk skip, gefur það komið af stað öfund og mótþróa hjá útlendum skipum, er þykjast misrétti beitt. Og svo er nú það atriðið, sem ekki þýðir að leyna, að í skrásetningu skipa er oft farið í kringum lögin, og hræddur er eg um það, að þetta mundi ekki draga úr leppmenskunni hér við land. Eg álít því, að þingdeildin geti að skaðlausu felt frumv. Í öllu falli virðist ógerningur að samþykkja það óbreytt. — Vilji þingið taka frumv. að einhverju leyti til greina, þá virðist mér í öllu falli nauðsynlegt, að takmarka það svo, að landsstjórninni væri að eins gefin heimild til að veita undanþágu einu og einu hérlendu skipi fyrir eitt ár í senn, ef útgerðarmenn óska þess, og sérstakar ástæður eru fyrir hendi, svo sem ef skipin eru látin koma mjög oft inn, daglega eða oft í viku, til þess að skila afla. Þó væri rétt að ákveða, að rétturinn mistist, ef skipin brúkuðu hann ólöglega, þ. e. yrðu uppvís að landhelgisveiðum.

Eg vil því ekki greiða atkvæði móti því, að frumv. gangi til annarar umræðu, ef háttv. nefnd vill taka þetta til nánari athugunar, og skýt eg því til nefndarinnar, hvort henni finnist ekki ástæða til þess, að breyta frumv. á þennan hátt.