17.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

7. mál, háskóli

Kristinn Daníelsson:

Eg skal strax taka það fram með ánægju, að mér þykir frumvarpið hafa batnað við þær breytingar, sem nefndin gerði á því, þó að mér finnist ýmislegt að athuga við það. Fyrst er að minnast á þær breytingar, sem nefndin kallar aðalbreytingar. Að fella burt 2. lið 29. gr. frumv. um embættisgengi, er eg nefndinni samdóma um. Breytingin um hvenær lögin skuli öðlast gildi er í mínum augum stærsta breytingin, og er eg nefndinni þakklátur fyrir hana, því að hún gerir það að verkum, að eg get greitt atkvæði mitt með frumv. í heild sinni. Þá vil eg minnast á ýmisleg atriði, sem þörf væri á að laga í hendi sér og athuga nánar. Það er 1. og 2. breytingartillaga nefndarinnar, að »prófessorar« komi í stað aðalkennara. Eg vil fastlega mæla á móti þessari breyt.till.; því að það er síður en svo, að þessi breyt.till. horfi til bóta. Eg vil benda á það nú, þegar einmitt þeir sömu menn, sem fjallað hafa um þetta frumv., hafa líka snúið háskólalögunum norsku á íslenzku, og þar eru þessir embættismenn að eins kallaðir háskólakennarar, en útlendu nöfnunum slept eða höfð á milli sviga fyrir aftan. Eg vil vara við því, að hleypa útlendum orðum að óþörfu inn í málið. Það er að vísu oft bent á, að orðinbiskup, prestur o. s. frv. eru útlend, en það mælir ekki með því, að taka útlend orð nú inn í málið. Þessi orð eru orðin gömul og komin inn í málið á þeim tímum, þegar sterkir útlendir straumar komust inn í þjóðlíf vort, með nýjum hugmyndum og hugtökum, sem þá voru óþekt hér á landi og hafði ekki tungan bolmagn til að útiloka þegar í stað eða útrýma síðar meir, þegar þau höfðu náð festu. En það má þó telja furðu, hvað þessi orð eru fá. Mér þætti einnig bezt, að orðið »rektor« félli í burt. Í þýðingunni af norsku lögunum er það líka gert, og »háskólameistari« sett í staðinn. Þetta orð er mjög virðulegt og snjalt og fer vel í munni. Eg vil því leggja til, að orðið »rektor« verði felt í burt, og 1. og 2. breyt.till. nefndarinnar feldar, en þau nöfn, sem standa í stjórnarfrumvarpinu, sett í staðinn. Og mun eg bera fram breyt.till. um það við 3. umræðu. Þá vil eg benda á, hvort ekki sé betra, í samræmi við 3. breyt.till. um að »háskólaár« komi í stað »kensluárs«, að setja »háskólamissiri« í 11., 13., 16., 17., og 26. gr. í stað »kens1umissiris«. 7. br.till. fer fram á að setja »dekani« í stað »dekanus«. í stj.frv. er »dekanus« sett í svigum fyrir aftan orðið deildarforseti. Eg get ekki haft á móti því, að það sé sett í krókbekk sviganna. En að setja »dekani« í staðinn, og leiða það í kór tungunnar, felli eg mig alls ekki við. Eg legg til, að 7. br.till. sé borin upp í tvennu lagi. Síðari liðnum gef eg atkv. mitt, en ekki hinum fyrri. 12. breyt.till. finst mér ástæðulaus. Það má láta sér nægja það sem stendur í stj.frv. Því að það er auðskilið, að hver sem tekið hefir stúdentspróf við hinn alm. mentaskóla, hvort heldur karl eða kona, hefir þann rétt, sem hér um ræðir. Um br.till. við 22. gr. er það að segja, að eg felli mig ekki betur við br.till. nefndarinnar, að setja »aftur« í stað »af nýju«. Í greininni er talað um ýms tilfelli, er nemandi gangi undir próf af nýju. Og eðlilegast er að sama orðið sé brúkað um sama hugtak við endurtekningu. Þá kann eg ekki við 18. breyt.till., að setja að »endurtaka prófið» í stað: »að ganga undir próf af nýju». Það er ekki nemandinn, sem endurtekur prófið, heldur eru það kennararnir, sem endurtaka prófið á nemandanum. Nemandinn er ekki gerandi. Eg hefi borið þetta undir hálærðan mann, og er hann mér samdóma um þetta atriði. Mér finst því þessi br.till. sé óþörf. 20. breyt.till. fer fram á að setja »háskólastúdent» stað »háskólanemandi«. Mér þykir háskólanemanda standi svo snoturt, að mér finst engin ástæða til að amast við því, eða þörf á að breyta því. Í 23. breyt.till. hefir nefndin lagt það til, að »háskólaráð« komi í stað »háskólanefndar«, en þá verður líka að breyta »hún« í »það«, og mætti leiðrétta það sem prentvillu, tillögulaust. Síðasta breyt.till. er aðal breyting nefndarinnar og fellur hún mér vel í geð. Mér hefði þótt það leitt, ef þessi breyting hefði ekki verið gerð, því að þá hefði eg ekki getað greitt frumv. atkvæði mitt. Nefndin leggur til, að lögin öðlist gildi, þegar fé er veitt til háskólans á fjárlögunum. Eg hefði að vísu getað komið með þessa athugasemd við 1. umr. málsins, en mér þótti það þó ekki við eigandi þá, til þess að trufla ekki hina snjöllu, vel fluttu og áhrifamiklu ræðu háttv. framsm. En eg álít það ósamboðið þessari háu stofnun að nota hús hins alm. mentaskóla. Eg hafði hugsað mér, að það yrði stórmikil stofa, sem benda mætti útlendum sem innlendum á með stolti, en að benda á efra loft hins alm. mentaskóla, er ekki til að miklast af. Í hugum okkar blasir við önnur og veglegri bygging. Það mætti fara mörgum orðum um þetta háskólamál, en eg vil ekki tefja umræðurnar. Eg vil því aðeins leggja til, að l., 2., 7., 12., 18. og 20. breyt.till. nefndarinnar verði feldar, og lagaðar verði þær misfellur sem eg hefi bent á, og trúi eg háttv. nefnd bezt til þess.