14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

36. mál, sala á Kjarna

Stefán Stefánsson:

Mig furðar satt að segja stórlega á því, að þetta frv. skuli hafa sloppið gegnum efri deild. Það sem fyrst verður að athuga við þetta mál, er það, hvort Akureyri hafi knýjandi ástæðu til að kaupa jörðina. Það er aðgætandi, að kaupstaðurinn hefir keypt aðra stóra jörð fyrir nokkrum árum, sem hefir mikið land, stórt tún og miklar engjar; og það er alveg víst, að kaupstaðurinn getur ekki notað það land að fullu, heldur hefir selt það á leigu. Auk þess er þar móland svo mikið, að vafasamt er, hvort lengur endist mótakið eða Akureyri. Auk þessarar jarðar, Eyrarlands, sem lögð var undir Akureyri fyrir nokkrum árum, hefir þingið nú samþykt að leggja jörðina Naust undir kaupstaðinn. Það er því síður ástæða til að auka enn við bæjarlandið. Eg ímynda mér, þótt ekki sé eg vel kunnugur því, hve mikið land Reykjavík á, þá sé það þó örlítið í samanburði við Akureyrarland og er það torskilið, hvers vegna það er nauðsynlegt fyrir Akureyrarkaupstað að eiga meira land en Rvík.

Af þessum ástæðum sé eg ekki, að brýn nauðsyn sé, að samþykkja þetta frumv., heldur þvert á móti. Akureyri hefir notað hagbeit í Kjarnalandi, og þar sem það hefir að eins verið nokkur hluti bæjarins, þá þykir mér sennilegt, að bærinn geti fengið þar leigða hagabeit framvegis, svo að engin þörf sé á, að kaup fari fram á jörðinni. Það er heldur ekki nauðsynlegt fyrir bæinn að fá jörðina, til þess að byggja þar grasbýli, því að Akureyri á mikið land ónotað nær sér, sem liggur vel við til ræktunar. Auk þess er jörðin Hamrar á milli Kjarna og Akureyrar og væri þá eðlilegra að bæjarfélagið keypti hana fyrst. Með öðrum orðum eg sé enga brýna ástæðu til þess að svo komnu að ásælast jörðina.

Á hina hliðina er og vert að athuga, hvað á undan er gengið í þessu máli. Árið 1905 bað ábúandinn um kaup á jörðunni, en sýslunefndin synjaði um það af þeirri ástæðu, að talað var um að hið opinbera mundi að líkindum nota jörðina sem skólasetur. Það er ekki víst að svo verði, en eg verð að telja það mjög óheppilegt að taka fram fyrir hendur sýslunefndarinnar og brjóta þannig þjóðjarðasölulögin, veita það á öðru þinginu, sem það svo sviftir á hinu. Með þessu er ekki eingöngu sveitarfélaginu, sem hefir forkaupsrétt næst eftir ábúanda, misboðið, heldur og sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, sem lagt hefir áherzlu á, að jörðin verði ekki seld að svo stöddu.

Af þessum ástæðum vona eg, að h. þd. hugsi sig vel um, áður en hún sþ. þetta frumv.