16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

36. mál, sala á Kjarna

Stefán Stefánsson:

Við 1. umræðu þessa máls komu fram hér í deildinni nokkur orð, sem eg vil leyfa mér að mótmæla. Sérstaklega voru það orð hins háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.), þar sem hann reyndi að hafa á móti ástæðum mínum fyrir því, að þjóðjörðin Kjarni yrði ekki seld. En mótbárur hins háttv. þm. virðast í rauninni einskis verðar, enda komu þær ekki fram, fyr en eg var »dauður«, og gat ekki svarað honum,

Aðalástæða mín gegn sölunni var sú, að Akureyrarbæ bæri engin nauðsyn til að fá jörðina keypta — og þessa ástæðu viðurkennir jafnvel hinn háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.), En þó áleit hann, — og færði sem eina aðalástæðu, — að jafnskylt væri að selja jörðina nú eins og síðar, þegar kaupstaðurinn, máske að liðnum tugum ára þyrfti jarðarinnar við. Eins og allir sjá er þetta hin mesta fjarstæða. Eg tek það enn fram, að Akureyrarbæ er engin brýn þörf á þessari jörð; bærinn á mikið af óræktuðu landi miklu nær sér, en þessi jörð er.

Aðalástæðan fyrir Akureyri getur því ekki verið sú, að bærinn ætli sér að rækta þetta land (Kjarna), heldur er það túnið og hin stóru engjaflæmi, er bænum er hugleikið að ná í til afnota, en alls ekki til þess að rækta það, sem óræktað er af landinu.

Það land, sem komið gæti til mála að yrkja af Kjarnalandi, eru móar, sem eins og eg hefi skýrt frá, eru örskamt frá Akureyri. En á harðlendinu, sem liggur fyrir neðan svo kallaðar Kjarnabrekkur, og er slétt, og liggur vel til ræktunar, eru þegar komin upp grasbýli, og verður það land ræktað af þeim, sem þar hafa bygt.

Til samanburðar við Akureyri í þessu efni, tók eg Reykjavík til dæmis. Það myndi verða mikið land, sem Reykjavíkurbær þyrfti að leggja undir sig, ætti það að vera hlutfallslega við Akureyri. Hinsvegar hefir Reykjavík aukist mjög á síðari árum, þótt ekki hafi hún haft til líka annað eins landflæmi til umráða og eignar sem Akureyri. Og hve mikið land þyrfti t. d. Kaupmannahöfn til jafns við Akureyri hlutfallslega? Það yrði líklega ekki öllu minna en Sjáland alt!

Eg býst nú við, að ekki sé til mikils að fara um þetta öllu fleiri orðum, enda hefir einn háttv. þm. úr flokki meiri hlutans tjáð mér, að það væri orðið flokksmál, svo hann gæti ekki greitt atkvæði á móti sölunni, þó hann hefði feginn viljað.

En eg vona, að þetta hafi verið misgáningur eða misskilningur hjá háttv. þm., og vænti þess fastlega, að háttv þingdeild hugsi sig vel um, áður en hún greiðir atkvæði með sölunni.