19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

36. mál, sala á Kjarna

Stefán Stefánsson:

Eg skal strax taka það fram, að jafnvel þótt við höfum komið fram með þessa breyt.till. (á þgskj. 506) höfum við ekki fallið frá þeirri aðalkröfu vorri, að jörðin verði ekki seld. Með því að selja jörðina nú er spilað úr eign landssjóðs miklu fé í framtíðinni, og hreppsfélaginu, sem jörðin liggur í, sýnt bersýnilegt misrétti, fái það ekki að sitja fyrir kaupunum, sem samkvæmt lögum 20. okt. 1905 nr. 30, 4. gr., á forkaupsrétt að jörðinni. En svo vil eg taka það fram, að sýslunefndin hefir eindregið lagt á móti því, að jörðin yrði seld, þetta geta háttv. þingdeildarmenn séð af sýslunefndargerð Eyfirðinga 1905, sem eg hefi hér fyrir framan mig. Þá bað ábúandinn um að fá jörðina keypta, svo það var ólíku meiri ástæða en nú, að láta það þó eftir, að landssjóður seldi þessa góðu og fallegu eign sína.

Þessi réttur sýslunefndarinnar til þess, að neita um sölu á jörðinni er svo skýrt tekinn fram í lögunum »um sölu þjóðjarða«, að eg hygg, að hver einasti þingmaður verði að játa, að svo framarlega, sem þetta frumv. verði samþykt, þá brjóti þingið algerlega það princip, sem ákveðið er í nefndum lögum. En þótt meiri hlutinn á þessu þingi leyfi sér að lítilsvirða gildandi lög og heimili sölu á jörðunni til Akureyrarbæjar, þá er þó það verð, sem efri deild hefir látið sér nægja á henni of lágt, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, hvar jörðin liggur. — Lægi jörðin mjög langt upp til sveita, þá væri öðru máli að gegna, en þar sem jörðin liggur jafn skamt frá öðrum stærsta kaupstað landsins, þá getur engum, sem til þekkir, blandast hugur um það, að verð jarðarinnar í hendur bæjarfélagsins er of lágt metið, því þess ber vel að gæta, að hér er ekki að ræða um þá venjulegu sjálfsábúð, þar sem þess er að vænta, að jörðin verði prýdd að húsum og allri góðri umhirðu, heldur verður hún að miklu leyti, sem nokkurs konar fótaskinn kaupstaðarins, og af henni flutt fyrir það mesta, sem hún getur af mörkum látið. Þetta hygg eg, að matsmennirnir hafi ekki sérstaklega tekið til greina. Til þess að sýna það enn betur, hve mikið áhugamál það er Hrafnagilshreppsmönnum, að jörðin verði ekki seld Akureyrarbæ, þá skal eg leyfa mér, með leyfi hins hæstv. forseta, að lesa upp bréf, sem borist hefir okkur þingmönnum Eyfirðinga frá hreppsnefndinni og sýslunefndarmanninum í Hrafnagilshreppi, er hljóðar svo:

»Eins og sjá má af þingmálafundargerð Akureyringa, þá hafa þeir falið þingmanni sínum, að fá þingið til að semja sérstök lög um það, að Akureyrarbær geti fengið keypta þjóðjörðina Kjarna í Hrafnagilshreppi. Ábúandinn á Kjarna hefir gefið eftir eða réttara sagt, eftir kunnugra sögn, selt bænum kaupréttinn fyrir 200 króna árlegt lífstíðargjald.

Mál þetta er þannig vaxið, að bændur í Hrafnagilshreppi geta ekki setið lengur þegjandi yfir því, að bæði privat-manna jarðir hver eftir aðra og nú síðast landssjóðsjörðin Kjarni verði tekin til eignar og umráða fyrir Akureyrarbæ, en svift frá Hrafnagilshreppi.

Hreppurinn hefir sýnt sig mjög liðlegan og sanngjarnan gagnvart kaupstaðnum, þar sem hann hefir gefið eftir, að milli 80 og 90 hundruð, eftir nýju mati, sem tilheyrðu hreppnum, væru lögð undir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar.

Í þetta sinn sýnist aðferð sú, sem bærinn ætlar að brúka, vera nokkuð viðsjárverð. Árið 1905 neitaði sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu ábúandanum á Kjarna um kaup á jörðinni, og eru í sýslufundargerð frá því ári færðar ástæður fyrir þeirri synjun, og sú ástæða stendur enn hjá mörgum sýslubúum, sérstaklega hvað kvenna- eða hússtjórnarskóla snertir. En nú sýnist svo, sem það eigi að ganga fram hjá sýslunefnd, að segja álit sitt um málið, og Hrafnagilshreppur er ekki nefndur á nafn, að hann hafi nokkurn forkaupsrétt að jörðinni. Eftir útliti er ætlast til þess, að gengið sé fram hjá tveimur málspörtum, sýslunefnd og Hrafnagilshreppi, með þessa sölu. — Eftir okkar áliti getur sala á jörðinni til Akureyrarbæjar verið mjög athugaverð fyrir Hrafnagilshrepp.

Samkvæmt breytingu þeirri frá síðasta þingi á lögunum um húsmenn og þurrabúðarmenn, þá getur Akureyrarbær látið byggja grasbýli á ýmsum stöðum í Kjarnalandi og leyft fólki þar bólfestu, sem getur á sínum tíma orðið hreppnum til mikilla þyngsla án þess, að sveitarstjórn hafi þar nokkuð til varnar, því tilgangur bæjarins mun vera sá, að leggja ekki Kjarna, ef hann fæst, undir lögsagnarumdæmi kaupstaðarins, því það mun bæjarstjórnin sjá, að verður of mikill byrðarauki fyrir bæinn, enda ekki samrýmanlegt, nema að bærinn keypti líka þjóðjörðina Hamra, sem liggur á milli Nausta og Kjarna.

Það er eigi svo að skilja, að Hrafnagilshreppur sjái ofsjónum yfir uppgangi Akureyrarbæjar eða framtakssemi bæjarbúa, enda hafa þeir sýnt það með því, að gefa eftir hverja jörðina eftir aðra til Akureyrar, en öllu má ofbjóða, og þar sem auðsætt er, að Akureyrarbær er búinn að fá svo mikið land til umráða af Hrafnagilshreppi, að hann hefir nóg land til ræktunar um mörg ár, og jafnframt þá mikla og góða gripahaga, þá vilja hreppsbúar undantekningarlaust ekki láta skerða hreppinn meira eða veita honum ágang, heldur setja takmörkin þar sem þau eru komin.

Álit okkar er því, að Akureyrarbær eigi ekki að ná kaupum á Kjarna, og felum við hinum háttvirtu þingmönnum Eyfirðinga, að stuðla að því eftir megni, að mál þetta fái ekki framgang á þinginu í þeirri mynd; en færi svo, að þingið væri ekki því mótfallið, að selja jörðina, þá mælumst við til þess, að Hrafnagilshreppur fái að sitja fyrir kaupunum, því það er eindreginn vilji hreppsbúa yfirleitt, og er von á áskorun frá almennum hreppsfundi í þá átt, og verður sú áskorun þá send með næsta pósti til þingsins eða þingmanna Eyfirðinga.

Hranastöðum og Stokkahlöðum

4. febr. 1909.

Pétur Ólafsson Einar Sigfússon

hreppsnefndaroddviti. sýslunefndarmaður«.

Eg verð nú að líta svo á og vænti þess fastlega, að þingið hljóti að taka þessa ósk til greina, og svo framarlega, sem það vill gefa kost á því, að jörðin sé seld, að Hrafnagilshreppur sitji þá fyrir kaupunum, því að neita því sveitarfélaginu, er jörðin liggur í, um kaupin og selja hana öðru sveitarfélagi, er bæði bersýnileg ósanngirni, og brot á eðlilegum og lagalegum rétti sveitarfélagsins.

Það er annars illa farið, hve þm. eru yfirleitt máli þessu ókunnugir, sérstaklega hvað snertir núverandi landeign kaupstaðarins; væru þeir því vel kunnugir þá mundu þeir enn betur geta sannfærst um, að hér er ekki um neina nauðsyn að ræða fyrir kaupstaðinn, og því fullkomlega réttmæt krafa Hrafnagilshrepps, en þá eigi síður um það, hvað kaupverð jarðarinnar snertir, sem Ed. hefir fallist á, 8200 kr., er ótilhlýðilega lágt. Ef háttv. þingdm. hefðu litið yfir þær miklu og góðu engjar, sem jörðunni fylgja, bæði hólma í Eyjafjarðará og víðáttumikil flæðiengi vestan árinnar, þá mundi þeim sannarlega ekki þykja 12,000 kr. ofhátt verð.

Eg fjölyrði þá ekki frekar um þetta mál, en vona, að sú aðalkrafa okkar, að jörðin verði ekki seld, nái fram að ganga.