19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

36. mál, sala á Kjarna

Pétur Jónsson:

Eg álít þetta frumv. til stórskaða fyrir landssjóð, af því hann má alls ekki farga þessari jörð. Eg er eindregið á móti sölu hennar, hvort sem verðið er 8000, 12000 eða 15000 krónur. Eg vil heldur ekki selja Hrafnagilshreppi jörðina. En ef hún er seld vil eg láta hann sitja fyrir henni. Það var ætlun landbúnaðarnefndarinnar að sveitarfélögin hefði kauparétt að jörðum landssjóðs innansveitar að leiguliðum eða ábúendum frágengnum. Þessi ákvæði voru tekin burt úr frv. nefndarinnar af stjórninni. Þessa breyting er eigi svo að skilja, að taka ætti þann forkaupsrétt, sem nefndin hugsaði sveitarfélögunum, frá þeim, heldur einungis að þau yrðu að sækja hann til þingsins í hvert skifti, er þau vilja kaupa landssjóðsjörð; að minsta kosti var svo að heyra í umræðum málsins á þinginu. Það væri því í meira samræmi við þingið 1905, að láta sveitafélög ávalt sitja fyrir slíkum jarðakaupum innsveitis að leiguliða frágengnum. Eg vil því styðja að því, að Hrafnagilshreppur fái heldur jörðina, ef hann vill, og þess vegna verð eg að greiða atkv. með breyt.till. við frumv. frá þm. Eyf. En ef sú till. fellur er eg efins í að greiða atkv. með hækkun á verði jarðarinnar upp í 12000 kr. Mér sýnist ef þingið vill endilega farga þessari jörð til Akureyrarkaupstaðar, þá sé bezt að lofa »skandalanum« að verða fullkomnum.