19.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

36. mál, sala á Kjarna

Hannes Hafstein:

Það er als ekki meining mín, að löggjafarvaldið sé bundið við ákvæði laganna um forkaupsrétt leiguliða, viðvíkjandi forgöngurétti hreppsfélaganna til þess að kaupa jarðirnar að leiguliða frágengnum. Það liggur öllum í augum uppi, að með sérstökum lögum er hægt að breyta út af þessari almennu reglu. En það virðist eðlilegast, að þingið sem fasteignasali fylgi sem mest sömu reglum í því efni, eins og það heimtar af öðrum að þeir fylgi, þegar fasteignir eru seldar. Sé það réttmæt, holl skoðun, sem liggur til grundvallar fyrir því boði löggjafarvaldsins, að hver einasti jarðeigandi skuli skyldur til þess að bjóða jörð sína, ef hann vill gera hana fala, fyrst ábúanda, og vilji hann eigi kaupa, þá hreppsfélagi því, sem jörðin er í, þá er ekki vel sjáanlegt, hversvegna þingið sjálft, sem sett hefir þessi lög, ætti við fyrsta gefið tækifæri að ástæðulausu að ganga þvert ofan í sínar eigin setningar, og neita hreppnum um kauprétt, að leiguliðanum frágengnum. Þess vegna óskum við tillögumennirnir, að Akureyri því að eins fái kauprétt á jörðinni, að Hrafnagilshreppur ekki vilji neyta forkaupsréttar fyrir það verð, sem sett verður á jörðina hér á þinginu. Hvort hreppurinn muni neyta þess réttar, veit eg ekki. Eg veit að eins að ósk um það, að hreppnum sé sýnt þetta réttlæti liggur fyrir þinginu.

Háttv. þm. G.-K. (B. K.) áleit, að jörðin væri of dýr á 12000 kr. Háttv. samþingismaður minn hefir sýnt fram á með rökum, að svo er ekki, enda er auðvelt að sýna það, að Akureyri mundi skjótt hafa talsvert meira upp úr henni, en þessari upphæð nemur.

Það er ekkert að byggja á hinu gamla sýslunefndarmati á jörðinni, sem er miðað við það, er jörðin gefur af sér, sem bóndabýli; en hér er um það að ræða, að selja jörðina til þess, að hún leggist niður, sem bóndabýli, taka hana frá landbúnaðar-atvinnunni, og gera hana að bithaga og slægjulandi fyrir kaupstaðarbúa; þegar jörðin er þannig seld til afnáms fyrir sveitarbúskap landsins, til þess að leggjast til kaupstaðar-afnota, þá er rétt, að hafa annan mælikvarða við matið. — Þá er hinn eini rétti mælikvarði, að meta hvað afurðirnar kosta í kaupstaðnum, að kostnaði frádregnum eða hve mikla borgun bæjarsjóðurinn mundi fá fyrir afnot þau, er hann gæti leyft af jörðinni, og miða söluverðið við það. Samanburðurinn við söluna á Bjarnarhöfn virðist og vera alveg úti á þekju. Í fyrsta lagi er þar um sölu privat-eignar að ræða, og fer verðið í slíkum tilfellum auðvitað eftir kauplyst og sölu-þörf. Í öðru lagi er kauptúnið, sem næst er þessari jörð, Stykkishólmur, að eins »hjáleiga hjá herragarði« í samanburði við Akureyri, að því er fólksfjölda og landvörumarkað snertir, og loks er munur á vegalengdinni milli Bjarnarhafnar og Stykkishólms, hvað hann er talsvert meiri, en milli Akureyrar og Kjarna. Svo ber og þess að gæta, að Bjarnarhöfn var als ekki seld kauptúninu Stykkishólmi til þess, að leggjast niður, sem jörð, heldur var hún seld sem bóndabýli, og varð verðið því að miðast við það, sem búskapurinn gefur af sér.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði, að það væri meiningin, að Kjarni ætti að sameinast sveitarfélagi Akureyrar á næsta þingi. En það er sá hængur á, að milli Akureyrarlands og Kjarna er önnur jörð, jörðin Hamrar, sem bærinn ekki á, og áður en um það getur orðið að ræða, að leggja Kjarna undir sveitarfélag Akureyrar, þá verður bærinn að eignast Hamra og draga land þeirrar jarðar einnig undir sitt umdæmi, því ekki mun þó þingið vilja hafa bæjarfélag Akureyrar slitið sundur í tvo parta með spildu af Hrafnagilshreppi á milli partanna. En að selja Akureyri Kjarna án þess, að hann gangi inn í sveitarfélag bæjarins, það kemur öllum saman um, að sé óheppileg ráðstöfun. Af þessum ástæðum, hygg eg, að fresta verði því fyrst um sinn, að taka ákvörðun um sölu á jörð þessari. Akureyri líður enga nauð fyrir það, þó þessu máli sé frestað.

Þeir háttv. þingmenn, sem fylgt hafa háttv. þingmanni Akureyrar svo trúlega, að þessu stórmáli (!), og látið sér svo umhugað um það, að honum lánist að koma því fram, geta, að því er velferð bæjarins snertir, með góðri samvizku látið hér staðar numið, og frestað frekari framkvæmdum í þessu máli, þangað til það er betur undirbúið, að einu og öðru leyti.