30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

41. mál, bankavaxtabréf

Jón Magnússon:

Það er fyllilega rétt, að nefndin öll varð sammála um að leggja það til, að tekið væri lán til að kaupa bankaskuldabréf þau, sem landsbankanum var heimilað með lögum 22. nóv. f. á. að gefa út, af því að það þótti óvíst, að þessi verðbréf mundu seljast í útlöndum fyrir sæmilegt verð. Nú eru þessi verðbréf, sem nema 2 miljónum kr., seld fyrir viðunanlegt verð, og af því að landssjóður stendur í ábyrgð fyrir þessum bréfum, þá nemur ábyrgð sú, er landssjóður hefir tekið á sig fyrir bankann 3 miljónum eða meira, að meðtaldri þeirri ábyrgð, er landssjóður hafði áður tekið á sig fyrir bankann.

Minni hl. í nefndinni telur ekki rétt að láta landssjóð að svo stöddu taka á sig meiri ábyrgð fyrir bankann; að vísu á landssjóður að fá fyrir lánsféð verðbréf hjá bankanum, en sú trygging, sem í því er fólgin, er ekki nema að nokkuru leyti veruleg trygging, því að bankinn er landssjóðs eign, og maður getur ekki í venjulegum skilningi sett sjálfum sér trygging. Ef landssjóður þyrfti sjálfur á peningum að halda, þá er enginn efi á því, að þetta lán, sem hér er um að ræða, spillir fyrir því, því að það veikir efalaust lánstraust landssjóðs.

Með þessu móti gerist landssjóður nokkurs konar aukabanki eða varabanki, og það verð eg að telja alveg óforsvaranlega fjármálapólitík.

Svo er á það að líta, að við söluna á verðbréfunum fær landsbankinn nú um 2 miljóna viðbót við starfsfé sitt, og veit eg ekki nema það ætti að nægja í bráð; tímarnir, sem yfir standa, eru töluvert viðsjárverðir, og það er viðsjárvert að vera alt af að sökkva landinu dýpra og dýpra í skuldir við útlönd.

Alt öðru máli hefði verið að gegna, ef um það væri að ræða að kaupa hluti í Íslands banka. Við það eignaðist landssjóður nýja eign. Eg skal samt ekki fara frekara út í samanburð um þetta, né heldur deila frekar um þetta mál.

Að eins vil eg enda mál mitt með því að biðja háttv. deild að íhuga nákvæmlega hvert stefnir, ef slík lög sem þessi eru samþ., og farið er að gera landssjóðinn að banka. Fyrir mínum augum er það svo, að verði þetta frv. samþ., þá erum vér komnir inn á mjög hættulega braut.