01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

41. mál, bankavaxtabréf

Framsögumaður (Bjarni Jónsson):

Eg skal ekki tefja tímann á því, að endurtaka það sem eg gat um áður, að verðlagi bréfanna yrði haldið hærra. En eg vil leyfa mér að spyrja þá h. þm., sem ekki ríða grundvallarreglum alt of mikið, hvort ekki sé þarft að girða fyrir það, að bankinn neyðist til að selja bréf sín við óhæfilega lágu verði; hvort það væri ekki þarft verk, ef landssjóður bjargaði 40,000 kr. af fé bankans?

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, að ekki væri þörf á meir en 2 miljóna aukningu á bankafénu, en »vandræðanefndin« svokallaða áleit, að ekki mundi veita af 4 miljónum als handa báðum bönkunum. Hitt er rétt hjá þm. S.-Múl. (J. Ól.) að ekki sé veitt nema heimild, ekki taki til nema þurfi. Hann má vita það, að landsbankinn skuldar á 2. miljón erlendis, en hinn yfir 2 miljónir. Hættan er í sjálfu sér engin. Bankinn notar vitanlega ekki þessa heimild nema til þurfi að taka. Það sem því hér er verið að gera er ekkert annað en það, að landsstjórnin beitist fyrir því að efla og útvega landsbankanum lánstraust erlendis. Það sjá allir, að slíkt getur orðið til mikillar nytsemdar, en aldrei til skaða.