01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

41. mál, bankavaxtabréf

Sigurður Sigurðsson:

Eg hef ekki miklu að svara háttv. 2. þm. Rvík. (M. Bl.). Hann sagði, að eg vildi ekki styðja landsins eigin banka, svo að hann gæti þroskast og blómgast, eins og hann komst að orði. En heldur þingmaðurinn þá, að það miði í raun og veru að því, að þroska og auka bankann, að honum sé sökt í botnlausar skuldir við útlönd?

Eg sagði áðan og tek það fram enn, að svo framarlega, sem tekist hefir að selja bankaskuldabréfin, þá er gersamlega horfin ástæðan til þess að samþykkja þessa lánsheimild, er felst í frumv. — Frumvarpið, eins og það er orðað, er þá orðið meiningarlaust og óþarft. Það er að vísu satt, að stór mikill hluti af fé bankans er fastur í ýmsum miður þörfum fyrirtækjum og hússkrokkum hér í Reykjavík, sem lítil eða engin eign er í. En úr því verður ekki bætt með þessu frumv. Annars skil eg ofur vel, að háttv. 2. þm. Rvík. (M. Bl.) komi það betur, að bankarnir hafi fé til umráða, svo að hann geti haldið áfram viðarverzluninni, haldið áfram að smíða hús og selja þau aftur. (Magnús Blöndahl: Þingmaðurinn vill dæma aðra eftir sjálfum sér).