03.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

41. mál, bankavaxtabréf

Hannes Hafstein:

Hæstv. ráðherra gat þess nýlega, að vafasamt væri, hvort frumv. um að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka næði fram að ganga í Ed., og taldi það hið mesta glapræði, ef bæði frumv. yrði feld. Eg sé ekki betur, en að samþykt þessa frv. opni þó Ed. leið til þess að fella hitt frv., og ættu þá þeir menn, sem er umhugað um hlutabréfafrv. ekki að samþykkja þetta. Það er áhugamál margra, að Ísland fái umráð yfir Íslandsbanka og að hann verði innlend eign, sem hann hefði átt að vera frá upphafi. Það er og vafalaust, að sú ráðstöfun, sem þar er um að ræða, veitir meiri peningum inn í landið, heldur en heimild þessi til að kaupa bankavaxtabréf, sem ekki verða útgefin fyr en jafnóðum og hin nýja þriðja flokks sería selst, þ. e. lán er veitt gegn fasteignum.

Þeim, sem þykir þetta máli skifta, má skiljast það, að ef málinu er hætta búin nú í Ed., þá muni því vera enn hættara, ef þetta frumv. verður samþ. hér.