22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

51. mál, stofnun landsbanka

Jón Magnússon:

Eins og háttv. framsm. tók fram var ekki deilt svo mjög um það í nefndinni hvort ástæða væri til að breyta skipulagi bankastjórnarinnar. Það má vel vera, að till. meiri hlutans megi til sanns vegar færa. En það sem oss bar á milli sérstaklega, var það, að okkur minni hluta mönnum þótti ekki liggja svo mjög á þessu máli, að það mætti ekki bíða til 1911, sérstaklega þar sem lagt er til, að skipuð verði milliþinganefnd til þess að athuga peningamál landsins. Þá var minst á það í nefndinni, að sum ákvæði frv. væri ekki sem bezt orðuð, en því má vitaskuld breyta. En sem sagt, það sem fyrir minni hlutanum vakti var það, að ekki væri nein veruleg ástæða til að gera breyting nú.