22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

51. mál, stofnun landsbanka

Hannes Hafstein:

Eg heyrði að framsm. (M. Bl.) gat um einhverjar fyrirhugaðar breytingar á 4. gr, en ekki í hverju þær ættu að vera fólgnar, og hlaut eg að álíta, að nefndin meinti eitthvað með því sem í frumv. stendur. En það gleður mig, að nefndin ætlar að falla frá þessu. Framsm. vildi gera lítið úr því, að þingið misti vald yfir bankanum. Nú kýs þingið 2 gæzlustjóra, en eftir frumv. að eins einn ráðunaut. Raunar skal eg játa það, að það er ekki rýrnun á valdi þingsins, ef þessi þingkosni maður á að hafa »veto« móti báðum bankastjórunum í hverju einasta atriði daglegra starfa, en ef þessu merkilega ákvæði verður nú kipt í lag, og ráðunauturinn á að eins að hafa tillögurétt, þá er ekki mikið eftir af því valdi, er þingið lætur nú gæzlustjórana fara með. Og færi svo, að milliþinganefnd yrði skipuð til að íhuga bankamál landsins, eins og fleygt hefir verið að til standi, þá er vel hugsanlegt, að hún yrði ásátt um nýtt fyrirkomulag, sem ekki útheimti breytingu á stjórn landsbankans, frá því sem nú er. — Gæti þessi óþarfabreyting því — ef til vill — orðið til ils síðar.

Úr því eg stóð upp, þá vil eg leyfa mér að taka það fram, að ekki væri vanþörf á að athuga, hvernig þau launakjör eru í raun og veru, sem farið er fram á að veita þessum fyrirhuguðu nýju bankastjórum meiri hlutans. — Föst laun eiga eftir 5. gr. að vera 4000 kr., en auk þess eiga þeir að fá — ásamt ráðunaut — 10% í svo nefndri »gróða-hlutdeild« af því sem afgangs verður að greiddum l% af seðlaskuld bankans í landssjóð, l% í húsnæðissjóð, og 2% í varasjóð. Þetta er nú að vísu herfilega orðað, en eg geng út frá því, að hér sé átt við »tantieme« af arði en ekki »prósentur« af veltufé né varasjóði, og að átt sé við byggingarsjóðinn þar sem nefndur er húsnæðissjóður, og meiningin er þá að þeir fái 10% af öllum arði, þegar frá er búið að draga 4% af 750 þúsund krónum frá arðinum. Til samanburðar skal eg geta þess, að eftir reglugerð Íslands banka fær bankastjórnin í »tantieme« 5% af arði, eftir að búið er fyrst að draga frá honum 4% af hlutafénu, sem nú er 3 miljónir, og síðar 20% af arðinum til landssjóðs og varasjóðs. Þrátt fyrir þennan frádrátt allan, verður þar all-álitleg gróða-hlutdeild, og aukist nú starfsfé landsbankans um 2 miljónir, eins og við er búið, gæti 10% af arðinum að frádregnum einum 4% af seðlafúlgunni orðið allálitleg upphæð. Verði málið ekki felt strax, held eg að ekki væri vanþörf á, að athuga þetta atriði nánar til 2. umr.