22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

51. mál, stofnun landsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Eg hefi aldrei annað sagt, en að þinginu hafi tekist vel með valið á gæzlustjórunum, ekki sagt eitt einasta orð í þá átt að lasta þá. Með frumv. þessu höfum vér meiri hlutinn viljað fyrirbyggja það, að bankastjórarnir og bankinn sjálfur gæti orðið nokkurs konar leikknöttur milli flokkanna á þingi í hvert sinn, og vænti eg, að jafn skýr og glöggur maður sem hv. þm. Vestm. (J. M.) er, verði mér samdóma í því efni.

Eg skal ekki fara að deila um þingsköpin við háttv. þm., né hæla mér fyrir að eg sé »þingvanur«, eins og hann sagði, en hitt er mér þó ljóst, að þingsköpin hafi verið til þess sett, að farið yrði eftir þeim, en ekki til þess, að vera sem dauður bókstafur, er þm. ekki þyrftu að breyta eftir.