24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

51. mál, stofnun landsbanka

Jón Magnússon:

Eg hefi raunar ekki frekara að segja, en eg sagði við 1. umr. þessa máls. Minni hluti nefndarinnar álítur enn, að ekkert liggi á að gera breytingu á stjórn bankans á þessu þingi, minni hlutinn ber fult traust til hinnar núverandi bankastjórnar. Í henni sitja þeir menn, að örðugt verður að fá hæfari, og þeir hafa stjórnað bankanum yfirleitt þannig, að ekki er ástæða að að finna; verkin sýna merkin, því að það er ómögulegt að segja annað en að bankinn hafi blómgast undir stjórn þessara manna. Annars ætla eg eigi að fara lengra út í þetta mál, en skal geta þess viðvíkjandi breyt.till., að eg álít þær flestar til bóta. Að því leyti er snertir það atriði, að eitt ákvæði í lagafrumv. er prentað með breyttu letri, þá vil eg benda á það að slíkt er óvenjulegt, og að mér virðist, eins og hér á stendur, óþarft.

Viðvíkjandi stjórn bankans skal eg geta þess, að mér þykir hinum lögfræðislega ráðunaut ætluð of há laun, og efast eigi um að fá má fullhæfan mann, þótt launin væru ákveðin lægri, og jafnvel spursmál, hvort nauðsynlegt sé að hafa nema tvo bankastjóra. Þá er í breyt.till. við 5. gr. talað um, að eigi megi aukalaun bankastjóra og ráðunauts fara upp úr 2500 kr. Virðist mér efamál, hvort þetta sé alveg rétt að setja hámarkið svona lágt; eftir því gæti laun bankastjóra varla farið upp úr 5000 kr. Hygg eg þó, að bankastjóra sé ekkert oflaunað með kr. 6000. Enn er eitt, sem kannske getur verið athugavert við þetta ákvæði, að ekkert er sagt um, hvernig skipta eigi þessum 2500 kr. milli bankastjóranna og ráðunauts, en það liggur í augum uppi, að ráðunautur getur eigi fengið jafnt á við bankastjórana af aukalaunaupphæðinni. Að minsta kosti er slíkt óréttlátt.