26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

51. mál, stofnun landsbanka

Sigurður Sigurðsson:

Eg vil að eins stuttlega gera grein fyrir atkvæði mínu viðvíkjandi viðaukatill. á þskj. 634. Eg verð að lýsa yfir því, að eg get ekki greitt atkvæði með henni. — Ekki svo að skilja, að núverandi bankastjóri eigi ekki eftirlaun skilið, heldur af því, að mér finst það ekki eiga við, að hnýta eftirlauna-ákvæðum viðvíkjandi honum inn í þetta frumv. Mér getur ekki dulist, að svo muni litið á, að í því felist, — segi alls ekki, að það sé svo, — bending fyrir manninn að segja af sér starfinu, en það verð eg að álíta, að sé í alla staði óviðeigandi. Eg álít, að nægur tími sé til að ákveða eftirlaun fyrir þennan mann, þegar hann segir þessum starfa lausum, og mun eg því sem sagt greiða atkvæði á móti þessari breyt.till., sem ræðir um eftirlaun handa núverandi bankastjóra.