26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

51. mál, stofnun landsbanka

Einar Jónsson:

Jafnframt og eg leitast við, að hafa sem mest gagn af öllu því, sem fram fer í þinginu og kynna mér það, sem fyrir liggur eftir föngum, þá er eg einnig svoleiðis gerður, að eg hef gaman af ýmsum setningum, sem falla hér í deildinni, ýmist vegna þess, að þær eru smellnar, ýmist vegna þess, að þær eru klaufalegar. Það, sem hér hefir komið fram hjá háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) skoða eg ekki smellið, heldur mjög klaufalegt. Hann er mjög valdalegur að ráðleggja þingmönnum og sagði, að þeir ættu, að kynna sér frv., áður en þeir ræddu um þau. Þetta er nú að vísu satt, en það er kemur til þessa frumv., þá þarf þess ekki með, að kynna sér alt frumv., því eg segi fyrir mitt leyti, að mér er alveg nóg, að lesa 1. gr. til þess að vera ákveðinn í því, að greiða atkvæði á móti frumv. Þar er farið fram á að stofna nýtt, og að mínu áliti óþarft embætti. Með öðrum orðum, að nú skildi vera 2 bankastjórar og hvers vegna? Það er nú gátan. Ekki getur það verið af því, að bankinn hafi svo mikið að gera. Það er vitanlegt, að bankinn á mest alt sitt fé útistandandi, og þá verð eg að segja það, að það mundi líta all-einkennilega út fyrir almenningi, að þingið væri að stofna nýtt bankastjóra-embætti til þess, að horfa ofan í tóma peningaskúffuna við hlið hins bankastjórans og innkalla skuldir bankans.