26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

51. mál, stofnun landsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Eg þarf ekki miklu að svara háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), því eg hefi áður í ræðum mínum marghrakið mótbárur þær, er hann kom með og læt mér því nægja, að vísa til fyrri ræðu minnar um það efni. Hvað sparnaðinn snertir, er hann og fleiri þingmenn hafa talað um, þá játa eg fúslega, að hann er góður og sjálfsagður, ef hann fer í rétta átt. En of mikið má af öllu gera og of mikill sparnaður getur oft og tíðum orðið hinn versti ósparnaður. Þetta vona eg, að bæði háttv. þingm. S.-Þ. (P. J.) og háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) viðurkenni fúslega, og greinir okkur þá ekki á í því efni.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) verður að virða mér til vorkunar, þótt eg ekki svari öllum hans hugsanagraut. Honum varð einnig tíðrætt um það, að spara þyrfti á alla lund, og engin þörf væri á breyting á stjórn bankans. Eg hefði nú kunnað betur við það, að þessi háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) hefði sýnt það í tillögum sínum og framkomu á þinginu, að hann vildi spara; en það hefir hann ekki gert, heldur þvert á móti viljað ausa út fé í bitlinga til einstakra manna, og svo einurðargóður hefir sami háttv. þm. verið í þeim efnum, að flestum gætnum mönnum mun þykja nóg um, og get eg nefnt fleiri dæmi, ef þingm. langar mikið til. — Annars hélt eg, að háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) væri annað betur gefið, en að dæma mikið um fyrirkomulag banka, — með allri virðingu fyrir hans fjármála-þekkingu. (Einar Jónsson: Eg hef fullkomlega vit á því). Eg skal ekki efast um, að svo sé, fyrst háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) gefur sjálfum sér þann vitnisburð. — Þá talaði háttv. sami þingm. um það, að hann þyrfti ekki að lesa nema 1. gr. í frv. til þess, að þekkja það alt, og verð eg að telja það alveg óvenjulega skarpskygni, og mikil gleði hlýtur það að vera þingi og þjóð — og þá einkum kjósendum háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.), að eiga öðrum eins snilling á að skipa við löggjafarstarf þingsins. — Þessi sami virðulegi þingsnillingur talaði þessu næst mest um tómar peningaskúffur í bankanum og gömul skjöl; en hvað hann hefir meint með allri þeirri mærð og útúrdúrum hafa víst fáir skilið; eg vona því, að háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) fyrirgefi, þótt eg leiði hjá mér, að svara slíkum markleysuþvættingi.

Eg ber það traust til háttv. deildar, að hún lofi frumv. fram að ganga.