05.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

50. mál, kirknafé

Umboðsmaður ráðherrans (Klemens Jónsson):

Af því að eg þekki dálítið til þessa máls. vil eg leyfa mér að gera stutta athugasemd.

Landsstjórn og alþing lagði fyrir nokkrum árum mikið kapp á það að koma landssjóðskirkjum af sér og í hendur safnaðanna. En það gekk eigi greitt, því tvívegis að minsta kosti hafnaði Möðruvallaklausturssöfnuður að taka að sér kirkjuna, er þó fór svo að lyktum, að það var samþ. á lögmætum fundi, en með því skilyrði, að fúlga kirkjunnar yrði lögð í sparisjóð Arnarneshrepps og ávöxtuð þar, en landsstjórnin fékk aldrei neitt að vita um þetta skilyrði. Hefði hún fengið vitneskju um það, þá hefði hún orðið að neita því, þar sem hún hafði enga heimild til að gera neina undanþágu frá þeirri lagaskyldu, að ávaxta fé kirkna í hinum almenna kirkjusjóði. En eins víst og þetta er, eins víst er það, að söfnuðurinn hefði aldrei tekið kirkjuna að sér, nema með þessu skilyrði. Af atvikum, sem eg vil eigi fara nánar út í hér var þó féð lagt inn í sparisjóð Arnarneshrepps, en eigi í hinn almenna kirkjusjóð og í sparisjóðnum er þetta fé enn í dag, en nú vill biskup fá það og einnig fé Munkaþverárkirkju, sem mun standa í kaupfélagssjóði í Eyjafirði, inn í kirkjusjóðinn og hyggur hann þá, að ef þetta fé þessara tveggja kirkna næst inn í sjóðinn, þá muni hann vera fær um að lána fé, sem þarf til þess að byggja upp þær kirkjur, er fuku í vetur.

Þessar upplýsingar hefi eg álitið mér skylt að gefa og vil jafnframt taka það fram, að hinn nýi biskup er þessu frumv. mótfallinn.