26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

50. mál, kirknafé

Framsögumaður (Björn Sigfússon):

Þótt nefndarálitið sé ekki langt, þá eru þar þó færðar glöggar ástæður fyrir því, hvers vegna nefndin getur ekki ráðið deildinni til að samþ. frumv. Eg þarf ekki að taka þær upp, en skal þó geta þeirra í stuttu máli. Nefndin álítur það rétta og heppilega meginreglu í lögunum frá 22. maí 1890, að alt kirknafé skuli renna í hinn almenna kirknasjóð. Telur hún féð þar bezt trygt og fyrirkomulagið henta vel, að féð sé í einu lagi og sé notað til til útlána handa kirkjum, til bygginga eða annara þarfa þeirra. Þessa grundvallarreglu telur nefndin rétta og að henni eigi ekki að raska.

En hins vegar að því er kemur til br.t. hv. 2. þm. Eyf., (St. St.) um undanþágu frá lögunum, þá er meiri hluti nefndarinnar henni hlyntur, vegna þess að hér stendur alveg sérstaklega á. Af því að söfnuðurinn í Möðruvallaklausturssókn hafði gert það að beinu skilyrði að fá sjóðinn og ávaxta hann í sparisjóði Arnarnesshrepps, er söfnuðurinn tók við kirkjunni, var honum afhentur sjóðurinn. Og það er víst, að ella hefði söfnuðurinn ekki tekið við kirkjunni. Þegar því í alvöru er gerð gangskör að því að krefja söfnuðinn um sjóðinn, neitar söfnuðurinn að afhenda hann. Það, sem beinast liggur við út af þessu, er málssókn, en hún mundi að minni ætlun verða mjög svo tvísýn, vegna þess að söfnuðurinn hafði selt þetta skilyrði, svo sem getið hefir verið um.

Af þessum sérstöku ástæðum þykir meiri hluta nefndarinnar rétt að aðhyllast breyt.till. hv. 2. þm. Eyf. (St. St.)