26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

50. mál, kirknafé

Jón Magnússon:

Það er út af ummælum háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) að eg stend upp. Hann sagði, að það væri verið að svíkjast að söfnuðinum. Þetta á líklega að skilja sérstaklega sem ásökun á núverandi biskup landsins, og mótmæli eg henni sem gersamlega ástæðulausri. Háttv. 2. þm. Eyf. veit vel, að hvorki stjórninni né núverandi biskupi var kunnugt um þetta skilyrði, sem nú er komið upp úr kafinu. Eg veit ekki til þess, að nokkurn tíma kæmi til þáverandi stjórnar vitneskja um þetta skilyrði, og því síður gat núverandi biskup um það vitað. Þess vegna er það gersamlega ástæðulaust að koma með þessar ásakanir til stjórnarinnar og biskups landsins.

En þó að nú skilyrði þetta hafi verið sett af söfnuðinum, sem eg efa ekki að sé rétt hermt, þá er ekki afleiðingin sú, að breyta skuli lögunum um hinn almenna kirknasjóð né brjóta þau. Söfnuðurinn getur nú sagt: Eg tók að mér kirkjuna með því skilyrði að fá sjóðinn. Ef sjóðurinn er tekinn af mér, er eg laus við kirkjuna. Gerið þið svo vel! En eg er sannfærður um, að söfnuðurinn gerir það aldrei.