30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

53. mál, sóknargjöld

Framsögumaður (Ólafur Briem):

Út af ummælum háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), vil eg taka það fram, að það skiftir engu, hvort breyt.till. nefndarinnar á þingskj. 701 sé fram komin eftir bendingu frá honum. Hvað sem því líður, þá er tillagan jafn réttmæt í sjálfu sér, þar sem hún á að miða til þess, að koma í veg fyrir, að menn geti komist undan, að greiða lögboðin gjöld til prests og kirkju, að eins með því, að látast vera í utanþjóðkirkjusöfnuði, sem ekkert leggur fram til safnaðarþarfa, og því er naumast hægt að heimfæra undir sérstakt kirkjufélag, jafnvel þótt það að nafninu til hafi prest eða forstöðumann, er fengið hefir konunglega staðfestingu.

Eg hef heldur ekki getað sannfærst af orðum háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) um það, að það sé rétt, að menn geti leyst sig undan gjaldi til prestlaunasjóðs (sama sem landssjóðs) með því, að greiða árgjald til fræðslusjóðs í hreppnum (í reyndinni sama sem sveitarsjóðs). Miklu fremur virðist það liggja í augum uppi, að slíkri heimild gæti orðið hraparlega misbeitt, einmitt þar sem sízt skyldi, með því að freista manna til þess, að skjóta sér undan lögboðnum gjöldum í hagsmunaskyni.