10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

145. mál, löggilding verslunarstaða að Klettsvík

Flutningsmaður (Sigurður Gunnarsson):

Eins og háttv. þd. sér, þá er þetta lítið frumv. Eg býst því við að deildin taki málinu vel, þar sem hér er að eins um eina löggilding að ræða á höfn í Neshreppi innan Ennis.

Það sem vakir fyrir beiðendum í þessu máli er, að það geti orðið þeim hagræði með aðflutninga, þar sem flóabátarnir og jafnvel strandbátarnir fengjust þá fremur til að koma þar við. Hvað vík þessa (Klettsvík) snertir, þá hefi eg í höndum vitnisburð kunnugra sjómanna um það, að þar sé fult eins góð höfn og í Ólafsvík. Botninn er góður, dýpið 7 faðmar og innsiglingin rúm, skerjalaus og bein.

Eg vonast eftir að þingd. leyfi málinu að ganga til 2. umr.