20.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

7. mál, háskóli

Framsögumaður (Lárus H. Bjarnason):

Eg er háttv. þm. G.-K. þakklátur fyrir það, hve vel hann lagði til málsins, og synd væri það, að vera vanþakklátur háttv. þm. V.-Ísf., þó hann talaði ekki eins vel fyrir málinu og eg hefði óskað. Satt að segja hélt eg að ekki væri meira til í pokahorninu því eftir síðustu umræður.

Eg vil taka það fram aftur, út af orðum háttv. þm. V.-Ísf., að það er engan veginn nauðsynlegt að byggja nýtt hús fyrir háskólann. Það geta ekki aðrir álitið en þeir, sem halda að hús og stofnun sé það sama. Það sem er mergurinn málsins er, að sameina þá skóla sem nú eru í eina heild, og að útvega þeim sjálfstjórn. Þeir hafa hingað til legið undir eina skrifstofu í stjórnarráðinu. Að vísu hefir sú skrifstofa verið vel mönnuð, en það er öldungis óvíst að svo verði alt af. Enda er það sjálfsagt, að slíkar stofnanir stjórni sér sjálfar. Auk þess er háskólinn nauðsynlegur af því, að margar greinir, sem ætlast er til að verði kendar í honum, eru og verða ekki kendar annarstaðar. En öllum er þeim svo varið, að hægt er að kenna þær hér.

Sigli menn undir sjálfstæðisflaggi, verða menn að vera reiðubúnir að leggja eitthvað í sölurnar fyrir sjálfstæðið. En sé nokkuð spor í sjálfstæðisáttina til, þá er það stofnun háskóla. Það eru keipar einir hjá háttv. þm. Ísf. og V.-Ísf., að hafa á móti frumvarpinu eins og það er. Háttv. þm. Ísf. vil eg sérstaklega minna á það, að það er til ýmislegt í lífinu, sem ekki verður metið til peninga. Annars er það undarlegt, að menn skuli vera að berja kostnaðinum við, eins og honum yrði fleygt í sjóinn. Því fer fjarri. Peningarnir hafa bara vasaskifti; þeir renna að vísu úr landsjóði en til Íslendinga, og þaðan aftur í landsjóð, sem skattar, tollar o. s. frv.

Síðast en ekki sízt má minna á vanhöldin, sem hafa orðið af því, að menn hafa þurft að senda syni sína lítt þroskaða til útlanda. Þau hverfa úr sögunni með stofnun innlends háskóla.

Annars bjóst eg ekki við umræðum um málið á þessu stigi. Einasti hugsanlegi agnúinn var fjárhagurinn, að fé væri ekki til í svipinn. Úr honum er bætt með því ákvæði, sem nefndin setti inn í frumvarpið, að háskólinn skuli ekki taka til starfa fyr en fé verður veitt til hans á fjárlögunum. Eins og eg hefi þegar tekið fram við 2. umr., álít eg persónulega, að við höfum ráð á að veita fé til skólans nú strax, við sem nýlega höfum fleygt hundruðum þúsunda út í stundargaman, en þeir sem líta annan veg á það atriði, geta þó huggað sig með því að komandi þing ráði því, hvenær til fjárútlátanna kemur.