10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

145. mál, löggilding verslunarstaða að Klettsvík

Flutningsmaður (Sigurður Gunnarsson):

Eg get ekki verið samdóma hinum háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) um það, að það séu sömu ástæður til þess að hafna þessu frumv. og frumv. um löggildinguna í Viðey. Aðalástæðan gegn því frumv. var sú, að Viðeyjarhöfn er fáa faðma til þess að gera frá Reykjavíkurhöfn, og mundi það verða stór hnekkir fyrir hana, ef sú höfn yrði löggilt, en slíkt getur als ekki komið til greina, að því er til Ólafsvíkur kemur. Verzlunarhús verða naumast reist við Klettsvík, nema reynslan sýni, að það sé hentugra almenningi. Eg skal í sambandi við þetta geta þess, að innri hluti Neshrepps er í þann veginn að verða sérstakt hreppsfélag; hefir það verið samþykt á fjölmennum fundi í Ólafsvík með miklum atkvæðamun að leyfa þeim þetta og stóð eigi á öðru í vetur, en samþykki meiri hluta hreppsnefndar, er þó var talið nokkurn veginn víst í hendi.

Vera má að háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) finni ástæðu hjá sér til að hefna sín á þessu frumv., af því löggilding Viðeyjar féll, og mun hann þá vilja gera fleiri löggildingum, er fyrir þetta þing koma, sömu skil. En eg vona að hann fái því eigi ráðið, heldur muni deildin og þingið alt leyfa þessu litla frumv. fram að ganga.