01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

54. mál, löggilding Dalvíkur

Flutningsmaður (Stefán Stefánsson):

Ástæðan til þess að þetta frumv. kemur svo síðla fram hér á þingi er sú, að eg fékk ekki nokkra vísbending eða bréf frá hlutaðeigandi hreppsnefnd fyr en nú. En þótt svona sé áliðið þingtímans, þá vænti eg þess að hin háttv. deild taki málinu vel og leyfi því að ganga sem hraðast gegnum hinar lögskipuðu umræður, að kostur er á. Það er annars næstum stór furða, að Svarfdælir skuli ekki fyrir löngu vera búnir að fá Dalvík löggilta eða með öðrum orðum óska þess, að þingmenn kjördæmisins flyttu það mál, því það mun þó nokkrum sinnum hafa komið fyrir, síðan þær verzlanir komu á fót, sem eru þar og hafa verið um nokkur ár, að erfiðlega hefir gengið að fá vöruflutningaskip til þess að koma þar inn á höfnina, af því að hún ekki var löggilt.

Því miður hefi eg ekki neinar mælingar á dýpi eður aðrar skýrslur að leggja fram viðvíkjandi höfninni, en mér er kunnugt um það, að hún þykir allgóð höfn, bæði mjög góður haldbotn og hlé fyrir miklu sjóróti, nema í norðaustanátt, en þá er stutt að leita til góðrar hafnar við Hrísey.

Það sem eg hygg, að einkum valdi því, að þessarar löggildingar er beiðst, er það að Svarfdælir hafa myndað sérstakt kaupfélag fyrir sveitina, og er þar afleiðandi svo afaráríðandi, að fá öll sín vöruflutningaskip, sem hindrunarminst til þess að koma þar á höfnina.

Eg fer þá ekki um þetta fleirum orðum, en vona að löggildingin mæti engri mótspyrnu, enda er eg sannfærður um að þær hafa fjölda margar átt sér stað löggildingarnar, er síður var ástæða til, bæði hvað staðhætti og höfn snertir.

Vegna naumleika tímans vildi eg mega mælast til, að frumv. fengi að ganga í gegnum deildir þingsins með afbrigðum frá þingsköpum.