18.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

93. mál, löggilding Viðey

Magnús Blöndahl:

Eg verð að viðurkenna að mér brá í brún, er eg sá frumv. þetta lagt fram hér í deildinni. Og það því fremur, sem þessi deild hefir áður felt málið, og mundi með því að samþykkja það nú gera sig seka í ósamkvæmni. (Nokkrir þingm.: Þingmenn eru ekki þeir sömu nú og á síðasta þingi). Margir þeir sömu. Þar við bætist, að eg sé ekki, að neinar nýjar ástæður hafi komið fram í málinu, nema að síður sé. Að félagið hefir ráðist í að byggja hús og bryggju á staðnum eru léttvægar ástæður, og sízt til þess fallnar, að þingið geti tekið hið minsta tillit til þeirra, fremur en bygginga annara prívatmanna eða félaga.

Löggilding þessi getur heldur ekki komið landsmönnum til neinna nota, því ekki þarf að gera ráð fyrir, að Mosfellingar, eða þær sveitir, sem næst liggja, muni fremur sækja verzlun sína til Viðeyjar, þótt löggildingin komist á heldur en án hennar. Það mun einnig álit flestra mætra manna, að þingið eigi að hafa heill lands og þjóðar fyrir augum í þessu máli sem öðrum, en ekki fara eftir því, sem einstakir menn eða félög álíta sér bezt gagna.

Það er og heldur eigi nein ósamkvæmni af þinginu að neita þessari löggildingu, borið saman við fyrri löggildingar, því að hér stendur svo sérlega á, að staður þessi (Viðey), liggur undir handarjaðri höfuðstaðar Íslands, og alt önnur skilyrði fyrir hendi en vant er. Löggildingin mundi skaða bæinn mjög svo tilfinnanlega, með því að Reykjavík þá mundi meðal annars missa mikið af þeim hafnartollum, sem nú borgast til bæjarins. Hins vegar kemur það engan veginn tilfinnanlega niður á félaginu, þótt það fái ekki staðinn löggiltan; félagið getur alveg eftir sem áður haldið áfram að reka þar verzlun, og menn utan að munu engu síður sækja til verzlunar í Viðey, ef þeim þætti viðskifti þar eftirsóknarverð.

Eg sé því enga ástæðu til að veita löggilding þessa á kostnað bæjarins, en hálfútlendu félagi að eins í hag. Enn fremur skal eg geta þess, að höfnin er hreint ekki svo góð, sem ráðherrann (H. H.) lét í veðri vaka. Þegar austanstormur er á, er t. d. mjög ilt að liggja þar; en annars skal eg ekki fara fleiri orðum um þetta frumv. að sinni. Eg vona, að það verði felt.