18.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

93. mál, löggilding Viðey

Jón Þorkelsson:

Eg vil taka það fast fram, að engar nýjar upplýsingar liggja fyrir, er komið hafa fram síðan á síðasta þingi, — þá var mál þetta felt hér á þingi, — sem mæli með því að fara nú að löggilda þennan stað. Eg veit það líka og vona, að þingið sem á að hafa meir alment en einstaklingsgagn fyrir augum, muni eigi fara að »hlaupa erindi« einstaks hálfútlends gróðafélags, sem setst hefir hér að um sinn, en enginn fær vitað, hve lengi stendur. Ef löggilding þessi fengist, yrði Reykjavík fyrir hinum mesta órétti, sem verður því tilfinnanlegri, sem bærinn í svo mörgum öðrum atriðum er hafður út undan í samanburði við önnur kjördæmi landsins. Reykjavík hefir nú t. d. nær 1800 kjósendur til alþingis, en að eins 2 þm. Hins vegar hefir Seyðisfjörður með eitthvað 150 kjósendur 1 þm. Það getur að mínu áliti ekki komið til nokkurra mála, að farið sé að löggilda þennan stað, nema með því móti, að hann þá væri lagður um leið undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Landsmönnum er ekkert gagn í löggildingunni, en Reykjavík er hún til skaða. Og hverjum er svo verið að vinna gagn?