17.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

93. mál, löggilding Viðey

Jón Þorkelsson:

Eg get ekki skilið það, að efni frv. um löggilding verzlunarstaðar í Viðey hafi breytst svo til batnaðar síðan í febrúarmánuði, að það var felt hér í deildinni, að nú sé ástæða til þess að fara að mæla því bót. Það hefir ekki heldur batnað við það, að nú kemur það ólöglega fram. Þó hefir hinn háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) tekist á hendur að verja það, að ákvæði þessa fallna frumvarps hafa verið sett í efri deild inn í það frv., sem hér liggur fyrir. En ekki gat eg fundið, að ástæður þær, er hann færði fram fyrir réttmæti þessa lagabrots — því að lagabrot er það, sem hér hefir verið framið —, væri á neinum góðum eða réttum rökum bygðar, og var það eftir málefninu að vonum. Hinn hv. þm. hlýtur að sjá það eins vel og eg, að alt þingið gæti lent í ógöngum, ef það ætti að haldast uppi að taka síðari hluta þings efni úr þeim tillögum og frumvörpum, er feld hafa verið fyrri hluta þess. Á þann hátt mætti alt af vera að þrefa um sama hlutinn — og ekkert yrði að verki.

Hitt get eg skilið, að honum sé þetta kappsmál, þar eð hann var formaður þeirrar stjórnar, sem bar frumv. um löggilding Viðeyjar fram hér á þingi. Annað mál er það, hvort það er þess vert, að hann hætti sér í það að fara nú að taka svari þess, þegar það kemur fram í löglausri mynd.