20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

93. mál, löggilding Viðey

Hannes Hafstein:

Eg ætla mér ekki að blanda mér frekar í deiluna um það, hvort rétt hefir verið í formlegu tilliti, að koma með þessa tillögu aftur. Það verður að álítast afgert mál, að tillagan komi til atkvæða, og vona eg að hún verði samþykt. Eg get ekki séð, að hægt sé að segja með neinum rétti, að þingdeildin sé búin að ákveða svo afstöðu sína til spurningarinnar um löggildingu Viðeyjar, að hún hafi ekki alveg óbundnar hendur, nú er tillögunni víkur öðru vísi við, og hún kemur fram í öðru sambandi. Þó að deildin vildi ekki samþykkja löggilding á Viðey út af fyrir sig, þá getur verið góð meining í því, að samþykkja tillöguna, þegar það er orðið víst, að margar löggildingar aðrar, sem miklu minni ástæða er til, gangi fram á þinginu. Viðey er sjálfsagt bezta höfnin, sem farið hefir verið fram á að löggilda, og segja skipstjórar, að það sé bezta höfnin við Faxaflóa. Bæði er hún af náttúrunni góð höfn, varin fyrir öllum áttum, með nægu aðdýpi, en auk þess er búið að gera þar mjög mikil hafnarmannvirki, sem gera afnot hennar enn hægari og flýta mjög fyrir skipunum. Eg hef fyrir satt, að til þessara hafnarmannvirkja sé búið að verja um 300 þúsundum króna. Viti hefir verið settur á Geldinganesi, sem vísar sjófarendum leið inn á höfnina. Hann er þegar komin á sjókortin. Þar að auki eru 2 vitar við hafskipabryggjurnar, sem eru tvær. Við aðra er 28 feta dýpi, en hina 25 feta. 4 stórar »böjer« til að leggjast við. Járnbraut til að greiða fyrir við uppskipun og framskipun. Þar hefir verið grafið eftir vatni handa skipum, er þangað koma. Er múraður upp stór vatnsgeymir, er tekur 150 tonn af vatni, og er pumpað upp í hann úr brunnunum, en úr honum er vatnið leitt fram á bryggju, þar sem skipin geta lagst að og tekið vatnið. Á Reykjavíkurhöfn er afar-erfitt að fá vatn. Hér eru engar hafskipabryggjur, og þó að því vatnsleiðsla kæmi um allan bæinn, þá er útdráttarsamt að þurfa að sækja vatnið í land eða flytja það um borð í bátum, eins og verzlunarvarning. Það væri því mjög mikill hagnaður fyrir skip, sem þurfa að leita lands að eins eða aðallega til þess, að fá sér kol og vatn, að geta tekið þetta í Viðey, án þess að þurfa að koma fyrst til Reykjavíkur og borga hér hafnargjöld fyrir höfn, sem þeim er svo miklu óþægilegri. Það er afarmikill tíma-sparnaður, enda er þar þegar, þrátt fyrir þau vandkvæði, sem á eru, vegna þess, að Viðey er ekki löggilt höfn, all-mikil vinna fyrir skip. Þar eru daglega 60—120 manns í vinnu og mun það aðallega vera fólk frá Reykjavík, sem þeirrar atvinnu nýtur; en þetta mundi alt verða miklu meira, ef þessi höfn fengi að njóta jafnréttis við Kúðaós, Skaftárós og alla þessa ósa, sem verið er að löggilda.

Það er hálf-skringilegt að heyra andstæðinga frumvarpsins alt af vera að slá um sig með því, að mér sé þetta kappsmál, eg hafi komið fyrst fram með frumvarpið o. s. frv. Hvað skyldi þetta mál geta snert mig persónulega? Eg ímynda mér, að allir háttv. þingdeildarmenn viti, að þetta mál var ekki borið fram af mér á þinginu 1907, og ástæðan fyrir því, að það var nú tekið upp sem stjórnarfrv., var eingöngu sú, að hlutaðeigendur, sem sendu beiðni um þetta til stjórnarráðsins, færðu svo yfirgnæfandi ástæður fyrir beiðni sinni, að stjórnarráðið þóttist ekki geta komist hjá að sinna henni, nema á þann hátt, að taka frumvarp upp, vegna þeirrar reglu, sem þingið hingað til hefir fylgt um löggildingu kauptúna og vegna samanburðar við aðrar löggiltar hafnir; eg þykist viss um, að ef þingmenn kyntu sér málið, eins og stjórnarráðið gerði, þá mundu þeir sjá, að ekkert annað er þessu til mótspyrnu en reykvísk hreppapólitík og blint flokksfylgi við þingmenn Reykjavíkur, sem hafa alveg yfirdrifnar hugmyndir um það, hversu miklu hafnarsjóðurinn hér mundi tapa eða réttara hve mikið af tekjum hann mundi fara á mis við, ef þessari jafnréttiskröfu væri framgengt.