20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

93. mál, löggilding Viðey

Magnús Blöndahl:

Eg hefði vel getað búist við, að háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) mundi hafa betri gögn til að verja málstað sinn, en raun varð á. Hins vegar get eg ósköp vel skilið, að honum sé þetta kappsmál, þrátt fyrir yfirlýsingar hans í því efni, enda mun honum þykja vænt um frumv. og frá honum er það runnið. Alt er hann taldi upp því til kosta hafði als enga þýðingu, og kom naumast málinu við. Er nokkuð það til, er banni hlutaðeigendum að reka þar atvinnu sína, sem þeir þegar eru byrjaðir á? Öll vottorð hans eru handónýtt léttmeti, því ekkert er auðveldara en koma með vottorð um það gagnstæða. T. d. sagði skipstjóri nokkur við mig, að hann hefði einu sinni lagst við þessa makalausu bryggju, en það mundi hann ekki gera í annað sinn, því svo mikið hrófatildur væri þessi bryggja.

Þá talaði sami þm. um margskonar hlunnindi þar í Viðey og sagði að mikið mætti losa þar á stuttum tíma, og getur það vel verið rétt, en hefir þó þann litla galla, að það kemur ekki því máli við, sem hér liggur fyrir. Hann viðhafði þau ummæli, að hér væri um hreppapólitík að ræða. Slíkt er fjarstæða og lokleysa, enda órökstudd og óréttmæt árás, alveg að ástæðulausu. Þegar hann er að bera Viðey saman við aðra staði, sér hann þá ekki muninn? Þessi staður, sem hér er um að ræða, er rétt við bæjarvegg Reykjavíkur, ef svo mætti segja, en þó í öðru lögsagnarumdæmi, og þó hefir háttv. flutnm. þessa sæla frv. ekki komið til hugar að stíga neitt spor í þá átt að leggja Viðey undir lögsagnarumdæmi höfuðstaðarins. Hann talaði um óverðugleik ósanna, en það er gerólíkt og hin mesta fjarstæða, eða liggur nokkur af hinum stærri bæjum þessa lands við hliðina á þeim? Hann vildi neita því, að það gæti orðið nokkur hætta fyrir bæinn hér. Ef hinn háttv. þingm. vill athuga þetta rækilega og hlutdrægnislaust, þá hlýtur hann að komast að þeirri niðurstöðu, að þetta hefir ómetanleg skaðandi áhrif á þennan bæ, að slíkt tjón er óútreiknanlegt og verður með engum tölum talið. Það er að vísu satt, að allmargir verkamenn héðan úr Reykjavík hafa fengið atvinnu í Viðey, en það mælir als ekkert með löggildingu hennar, enda reyndi þm. ekki til að rökstyðja þau ummæli sín á nokkurn hátt. En svo er annað. Hvernig stendur á því að Mosfellssveitarmenn og Kjalnesingar hafa ekki látið neinar óskir í ljósi um að þetta kæmist til framkvæmda? Það hefir ekki heyrst nein rödd frá þeim í þá átt. Þá langar víst als ekki til, að Viðey verði löggilt. Og þó gæti þeim verið hægra ef til vill að sækja þangað nauðsynjar sínar, en til Reykjavíkur, eins og skiljanlegt er. Eg vil því endurtaka það, að engin rödd hefir borist oss til eyrna um það, að þessi löggilding væri sniðin eftir vilja þeirra, né nokkurs manns annars en þessa eina hlutafélags, er hér á hlut að máli, og virðist mér þó að það hefði máske getað ráðið nokkru um úrslit þessa máls. Eg get vísað háttv. þm. á það, að ræður þm. Rvk. á síðasta þingi eru í ágætu samræmi við skoðun mína á þessu máli, og sömuleiðis samkvæmt þeim skoðunum, er komu greinilega í ljós á þingmálafundinum hér. Hér liggur auðsjáanlega á bak við mikið kapp, og það er heldur ekkert óeðlilegt. því háttv. þm. er frumv. einkar kært, enda er það von, þar sem hann hefir borið það fyrir brjóstinu, og svo að segja fóstrað það og nært og flutt það á þinginu. En að hinu leytinu ætti hann þó að finna hvöt hjá sér og ástæðu til að athuga, að þetta alræmda frv. hefir í sér fólgna stórkostlega hættu fyrir Reykjavíkurbæ, og engum ætti að blandast hugur um það, að meira ber þó að meta hag um 11,000 manna, er í Reykjavík búa, en persónulegan hagnað þess félags, sem nú er eigandi Viðeyjar.