20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

93. mál, löggilding Viðey

Björn Kristjánsson:

Eg stend upp til þess að andmæla þeirri kenningu, sem komið hefir fram í umræðunum í dag, að eins sé háttað um þessa lög-gildingu verzlunarstaðar í Viðey og um aðrar löggildingar. Eg veit ekki betur en að allar löggildingar hafi farið fram eftir óskum hlutaðeigandi héraða. Að þessu leyti á ekki hin umrædda löggilding sammerkt við aðrar. Hér á löggildingin að eins að fara fram eftir ósk útlends félags, sem engin viðskifti eða lítil hefir við landsmenn. Ekki veldur það kappinu, að félagið fái ekki að verzla. Félagið er óhindrað að því að reka atvinnu sína, hvort sem staðurinn er löggiltur eða ekki, þegar það hefir sveitaverzlunarleyfi. Eini rétturinn, sem félagið vill ná í, er að komast hjá því að gjalda lögboðið hafnargjald hér í Reykjavík, og um það stendur slagurinn, hvort meta eigi meira hag þessa útlenda félags eða hag Reykjavíkur. Orð háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sýndu það, að löggildingin hefir enga þýðingu fyrir Mosfellssveit, af henni stafar enginn hagur til handa Íslendingum. Kappið alt miðar að því að losna við hafnargjöldin, því að engin bönd eða hömlur eru lagðar á það, að félagið fái rekið atvinnu sína. (H. Hafstein: Útmælingu lóða mundu þó Íslendingar hafa gagn af). Nei, af útmælingunni hafa Íslendingar ekki gagn, úr því að þeir hafa ekki gagn af löggildingunni yfir höfuð og mundu alls ekki fara að setja sig niður út í Viðey til að verzla.

Það, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) var að tala um, að skip hefðu legið hér marga daga, en losað sig á einum degi í Viðey, þá kemur það ekki þessu máli við. Það er engin hindrun fyrir skipin að afferma sig í Viðey, þótt þau séu afgreidd hér.

Af framantöldum ástæðum virðist mér ekki við eiga að samþykkja þetta frumv.