19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Ráðherrann (H. H.):

Mér finst hv. þm. Barð. (B. J.) gera hinum kgk. þm. rangt til. Það er vitanlegt, að margir þeirra hafa engu síður borið heill og hag landsins fyrir brjósti og sýnt ættjarðarást og þjóðrækni, en hinir þjóðkjörnu þm.; og eg verð að taka það skýrt fram, að ástæðan fyrir því, að eg tók þetta ákvæði upp í frumv. var als ekki sú, að eg hafi í sjálfu sér á móti því, að stjórnin skipi nokkra þingmenn. Það getur gefist mjög vel, ef vel er með farið.

Það er líka öllum kunnugt, að það er títt víðast þar sem löggjafarþing er tvískift, að stjórnkjörnir menn eigi sæti í efri málstofunni að meira eða minna leyti, og þykir þó vera stjórnfrelsi í landi. England hefir eigi þótt eftirbátur annara í þeirri grein, og eru þó í efri málstofunni engir menn, sem kjörnir eru af þjóðinni, heldur lávarðar einir, sem stjórnin getur fjölgað eftir vild, en flestir þeirra öðlast réttinn til þess að verða þingmenn um leið og þeir fæðast. Eftir hinni nýju stjórnarskrá Ung-Tyrkja, sem þykir mjög frjálsleg, útnefnir soldán alla efri málstofuna, o. s. frv. En hér á landi hefir mönnum komið saman um, að komast megi af án þessarar sérstöku kvaðningar til þingsetu; það hefir verið gert allmikið að því, að gera konungkjörna þingmenn tortryggilega frá því fyrsta og eymir eftir af slíku enn. Því er það ósk leiðandi manna í báðum flokkum, að nema burt það óánægjuefnið og gera alla þingmenn þjóðkjörna, og eftir þeirri ósk áleit stjórnin rétt að fara.

Eg verð að álíta, að deildaskifting hafi talsverða þýðingu. Og vonin um að fyrirkomulag frumv. verði að notum, byggist ekki einungis á því, að aldurstakmarkið er fært upp í 40 ár, heldur miklu fremur á hinu, að þegar alt landið kýs sem eitt kjördæmi, þá komast vafalaust þeir helzt að, sem eru þjóðkunnir og æfðir menn, sem ættu að geta orðið góður kraftur, er þeir koma allir saman í efri deild, og ætti það að geta trygt meðferð málanna miklu betur en starf einnar málstofu. Hins vegar játa eg fúslega, að málstofuskifting eins og sú, sem minni hlutinn 1907 fór fram á — að láta alt þingið kjósa efri deildina með hlutfallskosning — er meiningarlaus. Það verður að vera munur á kosningaskilyrðunum til deildanna. Annars mun gefast tækifæri til að ræða þetta nánara, og eins og eg benti á í fyrri ræðu minni má finna ýmsar leiðir.

Hvað snertir spurninguna um það, að taka ákvæði um almennan kosningarrétt og kjörgengi kvenna nú upp í stjórnarskrána, skal eg taka það fram, að mér er als ekki kappsmál að halda óbreyttum till. frumv. um það efni. Þau eru sett til þess að gefa löggjafarvaldinu frjálsari hendur til þess að haga sér eftir kringumstæðunum, og því ástandi sem er. En treystist þingið að stíga sporið alt í einu, þá skal eg ekki beitast móti því, jafnvel þótt eg verði að halda því föstu, að það er ekki rétt að leggja slíka breyting alveg að jöfnu við aukning á kosningarétti karlmanna; karlmenn hafa vitað það þegar frá unga aldri, að þar muni koma, að þeim beri réttur og skylda til þess að taka þátt í stjórnmálum, og hafa því getað haft ástæðu til að búa sig undir það á ýmsan hátt. Kvenfólkið hefir ekki haft ástæðu til að búa sig undir þau mál, og mun þar af leiðandi allur fjöldinn lítið hafa um þau hugsað. Eg verð því að álíta, að heppilegra sé að láta þær öðlast þennan rétt, smátt og smátt, eftir aldursflokkum, til þess að þær geti vanist við störfin, og það vildi eg ekki fyrirgirða með stjórnarskrárákvæði.