19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorkelsson:

Eg vil leyfa mér að benda á nokkur atriði í þessu máli.

Þess hefir ekki verið gætt í 14. gr. að heimta fornan rétt vorn, að því er kemur til frestandi neitunarvalds. Þessu þyrfti beint að breyta, því að vísu væri oss frestandi neitunarvald ómissandi, meðan svo er ástatt hjá oss sem er. Þingræðið er oss, eins og nú er, einhlítara til þess að steypa ráðherrum, en að koma hverju því fram til laga, sem nauðsynlegast er.

Í 20. gr. er gert ráð fyrir einhverjum varaþingmönnum, án þess að eg sjái á það minst annarsstaðar. Skýringar þarf á því.

Í 22. gr. er erfðasyndin frá sambandslagafrumv. og raunar frá því »faktiska« ástandi, sem nú er. Hún er sú, að Danir eru enn látnir hafa hér kjörgengi til alþingis.

Sömuleiðis stendur 52. gr. enn óhögguð, þrátt fyrir ósk manna um skilnað ríkis og kirkju.

Annars skal það tekið fram í þessu sambandi, að 47. gr. stjórnarskrárinnar hefir verið brotin alla tíð frá því er stjórnarskráin kom út 1874.